Tónlistarhátíðin Við Djúpið var endurvakin í ár og er það einstakt gleðiefni. Hún hafði lagst af árið 2014, en hafði þá verið haldin árlega síðan 2003 þegar hún var stofnuð af Guðrúnu Birgisdóttur flautuleikara og Pétri Jónassyni gítarleikara.
Námskeið voru haldin að deginum fyrir unga tónlistarnema og kennarar héldu tónleika. Á þjóðhátíðardaginn voru svokallaðir pikknikk tónleikar í Blómagarðinum á vegum hátíðarinnar og bæjarins, þar sem Katla Vigdís og Salóme Katrín léku við hvern sinn fingur.
Að kvöldi þjóðhátíðardagsins flutti Sæunn Þorsteinsdóttir svo alíslensk sellóeinleiksverk núlifandi tónskálda, Afterquake eftir Pál Ragnar Pálsson, 48 myndir mánans eftir Þuríði Jónsdóttur, O eftir Halldór Smárason og Solitaire eftir Hafliða Hallgrímsson. Þótt Sæunn sé ung sé að árum, á hún glæsilegan feril að baki. Hún hefur komið við sögu tónlistarhátíðarinnar nokkrum sinnum áður og kom engum á óvart að öll dagskráin lék í höndunum á henni í bókstaflegri merkingu. Hún skapaði einstakt andrúmsloft með hljóðheimi þessara seiðandi verka og hrífandi nærveru. Sæunn hefur verið valin næsti staðartónlistarmaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tekur hún við af Víkingi Heiðari Ólafssyni.
Erna Vala Arnardóttir spilaði verk eftir Mozart, Sibelius, Skrjabín og Schumann. Þarf ekkert að orðlengja það, að Erna Vala lék tæknilega meistaralega vel, og af mikilli andagift, nákvæmni og dýnamík. Ekki síst vakti athygli hve fyrirhafnarlaus spilamennskan virtist vera, oft horfði hún dreymandi yfir flygilinn í unaðslegu tónaflóðinu, en þegar tilþrifin urðu sem dramatískust virtist líkaminn þó svífa aðeins upp af píanóbekknum. Höfðu sumir á orði að það væri lyginni líkast hvað þessi fínlega stúlka réði yfir miklum sprengikrafti, en um leið ljóðrænni mýkt. Þetta voru mjög áhrifamiklir tónleikar fullmótaðrar listakonu.
Tveir söngnemendur komu fram síðdegis á sunnudeginum ásamt Pétri Erni Svavarssyni, þau Salný Vala Óskarsdóttir, sem söng She never told her love eftir Haydn og aríu Sophie úr Rosenkavalier og Birgir Stefánsson sem söng Una furtiva lagrima úr Ástardrykknum og Dies Bildnis úr Töfraflautunni. Skyldi engan undra þó að þessir ungu söngvarar ættu eftir að láta verulega að sér kveða í tónlistarlífinu, bæði hafa þau tígulegar raddir og mikla útgeislun.
Um kvöldið flutti kontratenórinn James Laing, ásamt Pétri Erni, enska dagskrá, allt frá Purcell, Dowland og Handel til Gerald Finzi og Vaughan-Williams. Röddin er gríðarlega falleg og flutningurinn næmur og innilegur. James er einn af þessum sem fæðast til að vera á sviði, kynningar frjálslegar og fróðlegar og túlkun öll einlæg og hlýleg. Á tónleikunum kom einnig fram Steinþór B. Kristjánsson, Dúi okkar, formaður Tónlistarfélagsins, sem hafði tekið þátt í söngnámskeiðinu. Hann stóð sig með prýði eins og við var að búast og ýmsir héldu niðri í sér andanum þegar hann tók lengstu línurnar í Behold úr Messíasi án þess að anda, en maðurinn er með einhverja mestu andrýmd sem um getur.
Óhætt er að segja að feiknalega vel hafi tekist til og að hátíðin hafi verið mikill menningarauki fyrir Ísafjarðarbæ, eins og á árum áður. Mjög mikilvægt er að hátíðin verði haldin árlega héðan í frá og eiga Pétur Ernir Svavarsson og Greipur Gíslason stórt hrós skilið fyrir frumkvæðið og skipulagninguna, já og ekki má gleyma að nefna Bjarneyju Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur sem var þeim innan handar og fleira gott fólk lagði hönd á plóg.