Bríet Vagna Birgisdóttir, söngkona og gítarleikari, heldur kveðjutónleika fimmtudaginn 19. maí kl. 20:00 í Hömrum, sal tónlistarskólans á Ísafirði. Þar syngur hún og spilar ásamt hljómsveit og munu þau flytja ýmis lög allt frá jazzi til rokks. Öllum er aðgangur heimill og ókeypis.
Bríet Vagna er uppalin á Þingeyri. Hún er mikill tónlistarunnandi og hefur verið syngjandi alveg frá því að hún man eftir sér. Í Tónlistarskólanum hefur hún stundað nám í gítarleik hjá Jóngunnari Biering á Þingeyri og í söng hjá Sigrúnu Pálmadóttur á Ísafirði frá því að hún byrjaði í M.Í.
Hún hefur verið virkur þáttakandi í leikfélagi menntaskólans, þar sem hún hefur verið í aðalhlutverkum í söngleikjum skólans. Bríet hefur komið fram á ýmsum hátíðum á Vestfjörðum t.d. Dýrafjarðardögum, Markaðsdögum í Bolungarvík og Í garðinum hjá Láru á Þingeyri.
Bríet Vagna útskrifast sem stúdent frá MÍ í vor og stefnir á að flytja til Reykjavíkur til að hefja þar áframhaldandi tónlistarnám í Tónlistarskóla FÍH.
Hljómsveit:
Andri Pétur Þrastarson – Rafmagnsgítar
Jóngunnar Biering Margeirsson – Gítar og Bassi
Jón Mar Össurarson – Trommur
Stefán Jónsson – Píanó