Velgjörðarfólk Tónlistarskóla Ísafjarðar er víða og alltof sjaldan nefnt. Sigrún Viggósdóttir og Páll Loftsson eru alltaf boðin og búin að rétta út hjálparhönd, eru einstaklega útsjónarsöm og ráðagóð, en dettur ekki í hug að þiggja neitt í staðinn nema ánægjuna. Svona fólk er ómetanlegt.
Strimlagardínurnar í Hömrum, sem eru rúmlega þrjátíu ára, voru farnar að láta á sjá og nokkra strimla vantaði inn í – eins og sjá má HÉR. Fenginn var gardínumaður að sunnan, sem mældi alla glugga og tilboð kom upp á milljón krónur. Við bárum okkur aumlega upp við Sigrúnu og Pál, sem fóru í miklar pælingar um hvernig hægt væri að gera þetta á ódýrari hátt. Með aðstoð þeirra fengu gardínurnar upplyftingu sem um munar. Margar ferðir fórum við í gluggatjaldabúðir í Reykjavík og nokkrar rúllur af strimlum pantaðar en þeir voru alltaf eins og út úr kú. Og alltaf vantaði okkur festingar í stað þeirra brotnu.
Nú lögðust Páll og Sigrún undir feld og hitnuðu heilasellur þeirra allverulega. Voru þær næstum bráðnaðar þegar þau komu ljómandi eins og sólir með lausnina, en verksvit þeirra og hugkvæmni er með ólikindum, endurnýting sem gerir allt sem nýtt! Með aðstoð FabLab fengu þau nýjar festingar smíðaðar.- ókeypis. Sigrún og Palli límdu og saumuðu saman strimla af ganginum, sem þurfum ekki að nota – ókeypis og það sést ekki neitt!.
Að lokum redduðu þau stiga og palli til að skipta um strimla og setja nýjar keðjur. Það ríkti mikil spenna þegar Albert var sendur upp með fyrstu strimlana. Rúna kom niður í Hamra og spilaði hátíðalög (Det var brændevin i flasken) við texta sem samdir voru á staðnum. Svona er nú gaman í því góða andrúmslofti sem ríkir í skólanum og gleðin sem ríkti eftir að allt var komið upp var sannarlega ósvikin!
Hjartans þakkir, Sigrún og Páll!