Tónlistarskóla Ísafjarðar var slitið í Ísafjarðarkirkju í dag. Bergþór Pálsson skólastjóri fór yfir skólastarfið í vetur, þakkaði nemendum, kennurum, forráðamönnum og velunnurum skólans.
Nemendur fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur og tónlist ómaði um alla kirkju.
Sigríður Ragnarsdóttir hlaut heiðursviðurkenningu Tónlistarskólans fyrir glæsilega skólastjóratíð hennar. Í máli Bergþórs kom fram að hún væri brautryðjandi sem hefur markað djúp spor í menningarlífi Ísafjarðarbæjar og sögu Tónlistarskólans: „Varla er hægt að hugsa sér nokkra manneskju leggja eins mikla sál og þrautseigju í starf sitt, en af þeirri hógværð sem einkennir gott fólk sem starfar af heilindum fyrir aðra og uppbyggingu hvers einstaklings. Hver og ein manneskja skipti hana máli í starfinu, lítil sem stór.
Hún var hér skólastjóri um 30 ára skeið, tók við af foreldrum sínum sem höfðu hafið skólann til vegs og virðingar. Sigríður leysti þetta vandasama verkefni frábærlega vel af hendi, svo að skólinn hélt áfram að vaxa og dafna í beinu framhaldi af starfi þeirra. Hún brann fyrir þeim verkefnum sem hún tók að sér, sannkallaður eldhugi. T.d. skipti hana miklu máli að vera með útibú í bæjunum hér í kring og hún kom þeim á fót. Einnig stóð hún fyrir söngleikjasýningum í samvinnu við Litla leikklúbbinn. Þá var henni mjög umhugað um að Sinfóníuhljómsveit allra landsmanna kæmi hingað vestur til að leika listir sínar.“
Skólaslitunum lauk með fjöldasöng og tóku gestir hraustlega undir í Sunnan yfir sæinn og Ó blessuð vertu sumarsól.
Eftirtaldir gáfu viðurkenningar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir:
Hamraborg
Vestfiskur
Klofningur
Arcticfish
Húsasmiðjan
Dress up Games
Selið Stokkalæk
Ísfirðingafélagið
Penninn-Eymundsson
Orkuveita Vestfjarða
Hraðfrystihúsið Gunnvör
Inga Ásta og Pétur Hafstein
Sigrún Viggósdóttir og Páll Leifsson
Jón Páll Hreinsson og Þuríður Katrín Vilmundardóttir
Opið er fyrir umsóknir á heimasíðu skólans: Smellið hér
.