Bjarney Ingibjörg

29. janúar 2022 | Fréttir

Bjarney Ingibjörg

 

Bjarney Ingibjörg

Nafnið hennar Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, skammstafað, er BIG. Það er lýsandi fyrir þessa stórhuga konu. Eins og sagt er, það sópar að henni, engin lognmolla.

Bjarney kennir einsöng, stjórnar kórunum og svo er hún deildarstjóri tónfræðagreina. Legg ekki meira á ykkur.

Bjarney er alltaf gasalega lekker. Kannski eru það genin, en amma hennar, Bubba Sam, rak efna- og hannyrðaverslun ásamt systur sinni, henni Jönu Sam, þar sem Heimabyggð er núna. Búðin hét Lekkert og Smart og þær stöllur voru því oftast kallaðar Lekkert og Smart.

Það var allt svo lekkert heima hjá ömmu Bubbu, bróderaðir dúkar og fín stell. Stundum sat Bjarney á eldhúsbekknum hjá henni og þá sagði amma: Elskan, viltu nú ekki skemmta mér með söng, meðan ég elda fyrir afa? Snemma beygist krókurinn, Bjarney sat og söng og lærði kvæði og söngva af ömmu Bubbu.

Trúlega varð þetta andrúmsloft til þess að Bjarney Ingibjörg er það sem kallað er gömul sál. Hún elskar gömul hús og eldar ljúffengan mat, allt saman glútenlaust og gvöð má vita hvað. Fyrir utan að hún prjónar dýrindis flíkur. Hún heillast af ljós- og litbrigðum í náttúrunni, sem eins og allir vita er auðvelt hér á Ísafirði. Sannkallað náttúrubarn, hún Bjarney Ingibjörg.

Amma Bubba hefði nú varla kallað þetta „frusstjald“ á bak við Bjarneyju, eins og við þessi ódönnuðu, en nemendur hennar sungu á bak við frusstjaldið meðan faraldurinn stóð sem hæst. Það er alltaf notalegt að vera nemandi hennar, því að hún ber hag nemenda sinna virkilega fyrir brjósti, eins og væru þeir hennar eigin börn. Það eru góð meðmæli.

Eins og sjá má á Alberteldar.is liggur bakstur afar vel fyrir Bjarneyju Ingibjörgu: SJÁ HÉR

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur