Rachelle kom til okkar í haust eins og stormsveipur, alltaf brosandi og oftast hlæjandi. Hún sér um kórastarf yngri barna og kennir á flautu og píanó, en er líka að skrifa doktorsritgerðina sína í kórstjórn.
Það er einhver frumkraftur í henni Rachelle og það kemur ekki á óvart að stundum fer hún niður í kjallara heima hjá sér með diskótónlist í heyrnartólunum og dansar eins og hún eigi lífið að leysa. Hún syngur gjarnan á göngunum og segir að ef maður elskar lífið, eigi maður að vera frjáls að því að tjá það eins og manni finnst best!
Það er talsvert stökk að koma til Ísafjarðar frá Sydney, en henni finnst bara algjört ævintýri að uppgötva eitthvað nýtt og framandi. Hún er nefnilega ævintýrakona, hefur búið í fjórum löndum og komið til yfir 35 landa.
Rachelle var varla komin til Íslands, þegar hún varð ástfangin af landinu. Hún var að keyra og sá heilan regnboga. Þegar hún bókstaflega keyrði í gegnum hann, fékk hún gæsahúð. Það er kannski aðalsmerki Rachelle, hún upplifir allt svo sterkt.
Hún skemmtir sér mikið yfir lífinu og gerir allt til að viðhalda barninu í sér, krúttar yfir sig þegar hún sér „mignons„ (verðið bara að gúgla) og svo hefur hann Groot (gúglið líka!) lengi fylgt henni á milli landa. Þegar hún tekur símann upp, birtist einhyrningur á skjánum.
Rachelle finnst gott að slaka á við að lita mandelur. Henni finnst mandelan sem er á myndinni kannski ekki alveg nógu vandvirknislega lituð, en ákvað að hengja hana upp til að sýna börnunum misfellur og útskýra að maður þarf ekki að vera fullkominn. Aðalatriðið er að njóta í botn, hvort sem það er tónlist, ilmurinn í náttúrunni eða annað.
Hún elskar að vera með börnum og um daginn bárust okkur skilaboð á þessa leið: „Ég bara verð að hrósa henni Rachelle sem er að kenna við skólann hjá ykkur, hún er algjörlega frábær kennari í alla staði, – endalaus þolinmæði, fyndin, skemmtileg og með ofurtrú á börnum. Er svo agalega lukkuleg með hana fyrir drenginn minn.“
Ekki leiðinlegt að fá svona skilaboð!