Skólalúðrasveitin undirbýr sig nú af kappi fyrir þátttöku í tónleikum í Norðurljósasal Hörpu sem fara fram sunnudaginn 12. nóvember. Tónleikarnir bera yfirskriftina Óskalög í Hörpu, en íslenskar skólalúðrasveitir munu fjölmenna í Norðurljós með sannkallaða maraþontónleika. Þema tónleikanna er ,,óskalög” og hefur hver hljómsveit valið sér sín eigin óskalög til að flytja. Það má því búast við fjölbreyttri og skemmtilegri efnisskrá á tónleikunum sem standa frá klukkan 11 til 18. Skipt er um hljómsveit á hálftíma fresti yfir daginn og reiknað er með að um 800 ungir hljóðfæraleikarar muni stíga á svið þennan dag.
Þetta er annað árið í röð sem Skólalúðrasveitin stígur á stokk í Hörpu en sveitin leikur sem fyrr undir stjórn Madisar Mäekalle. Hópurinn telur 25 hljóðfæraleikara ásamt fríðu föruneyti.
Samtök íslenskra skólalúðrasveita standa fyrir þessum viðburði með það að markmiði að vekja athygli á starfi íslenskra skólalúðraveita og að veita þeim sem eru í skólahljómsveit tækifæri til að sjá og heyra í öðrum hljómsveitum.