Spennandi nám í raftónlist fyrir börn á unglingastigi og eldri hefst í T.Í. í næstu viku!
Kennsla fer fram á þriðjudögum frá 16:15-17:15 en Andri Pétur Þrastarson stýrir námskeiðinu. Enn eru nokkur pláss laus en skráning fer fram á skrifstofu skólans, ritari@tonis.is. Allir þátttakendur þurfa að koma með eigin tölvu.
Í raftónlistartímunum verður farið yfir grunnatriði raftónlistar; að skrifa, útsetja, hljóðhanna og koma fram. Notast verður við tónlistarforritið Ableton Live, sem notað er af atvinnutónlistarmönnum, hljóðhönnuðum og tónskáldum um allan heim. Raftónlist er óhemjubreið stefna og kemur fyrir í nútímasamfélagi í ýmsum birtingarmyndum, svo sem í danstónlist, poppi, hip-hoppi, kvikmyndatónlist og auglýsingastefjum svo fátt eitt sé nefnt. Það sem allir afkimar stefnunnar eiga sameiginlegt er að til að byrja þarf ekki að eiga fullt af dýrum tækjum og tólum. Með aðeins tölvu, tónlistarforrit, heyrnartól og sköpunarþörf að vopni opnast dyrnar að óteljandi lögum og hljóðheimum.
Leitast er eftir því að nemendur verði sjófærir á hugbúnaðinn, geti talað um vinnuferlið sitt og eigi auðvelt með að veita sköpunargáfu sinni farveg. Að tala um eigin verk og annarra er hluti af ferlinu til þess að læra að veita og taka á móti uppbyggilegri gagnrýni.
Það er í mörg horn að líta í raftónlist, og stundum eru ekki skýr mörk á milli þess hvenær er verið að semja, útsetja og hljóðhanna og blanda. Góðar venjur, og smurt vinnuflæði skiptir sköpum á öllum stigum verksins til að auka líkurnar á því að það komist á leiðarenda.
Á að byrja frá grunni, eða sækja sér innblástur með því að grípa hljóð- og midi-búta úr öðrum verkum? Taktframvinda getur myndað lagform og endurkvæmar aðgerðir til að búa til nýtt efni. Hvaða hljóðgervil skal velja til að búa til hvaða hljóð? Hvernig má nota effekta bæði á gagnlegan og skapandi hátt? Og ekki má gleyma að búa til rými til þess að leika af fingrum fram og hafa gaman af.