Á föstudag og laugardag býðst áhugasömum að taka þátt í heimstónlistarsmiðju í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Von er á meistaranemum í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands en þeir heimsækja skólann og taka þátt í að leiða smiðju fyrir kennara. Þeir munu jafnframt bjóða upp á opnar smiðjur fyrir nemendur og kennara og alla þá sem vilja taka þátt. Það er Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir sem stýrir námskeiðinu en hún er menntuð við heimstónlistardeildina við Tónlistarskólann í Rotterdam. Allir eru hjartanlega velkomnir í opnu smiðjurnar sem munu fara fram í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar föstudaginn 15. september kl. 15:00 -17:30 og laugardaginn 16. september frá kl. 10:00-13:00. Kennarar, nemendur, foreldrar og allir þeir sem hafa áhuga á skapandi starfi eru hvattir til þess að mæta og búa til tónlist í skapandi andrúmslofti. Það er Jóngunnar Biering Margeirsson, kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem heldur utan um heimsókn meistaranemanna og smiðjurnar, ásamt Sigrúnu Kristbjörgu, en hann kenndi við LHÍ um nokkurt skeið.