Burtfarartónleikar Kristínar Hörpu

20. maí 2016 | Fréttir

Í kvöld föstudaginn 20. maí mun Kristín Harpa Jónsdóttir halda burtfarartónleika frá Tónlistarskóla Ísafjarðar. Tónleikarnir eru hluti af framhaldsprófi í píanóleik sem Kristín Harpa þreytti á dögunum.
Kristín innritaðist í Tónlistarskólann árið 2002 þá sex ára gömul.  Hún hefur jafnan verið virk í starfi Tónlistarskóla Ísafjarðar, komið fram á ótal tónleikum skólans, bæði á píanó, söng og ótal samleikshópum. Hún hefur fengið margar viðurkenningar á námsferli sínum fyrir framúrskarandi árangur m. a. Aðalverðlaun Tónlistarskólans vorið 2010. Kristín lék til úrslita í píanókeppni Íslandsdeildar EPTA árið 2010, sama ár  tók hún þátt í Lokahátíð Nótunnar. Árið 2013 var hún í Hljómsveit píanónemenda sem hlaut ÍSMÚS verðlaunin á Lokahátíð Nótunnar Kristín hefur einnig tekið virkan þátt í kórstarfi skólans frá unga aldri og um árabil verið félagi í Skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem einnig hlaut verðlaun á Lokahátíð Nótunnar 2013. Frá haustinu 2013 hefur hún verið undirleikari og meðstjórnandi Gospelkórs Vestfjarða og spilar með Karlakórnum Erni. Kristín hefur líka verið afar virk í leiklistar og tónlistarlífi bæði Grunnskólans og Menntaskólans á Ísafirði.  Þar hefur hún tekið þátt í uppfærslum leikfélaganna bæði sem leikari og tónlistarstjóri, nú síðast var hún tónlistarstjóri og útsetti tónlistina Í Litlu hryllingsbúðinni auk þess að fara með eitt aðalhlutverk í sýningunni.
Kennarar og starfsfólk Tónlistarskóla Ísafjarðar þakkar Kristínu Hörpu fyrir fjórtán skemmtileg og árangursrík ár  og fylgja henni góðar óskir um velfarnað og bjarta framtíð  á listabrautinni, en Kristín Harpa mun hefja nám við Listaháskóla Íslands á hausti komanda.
Tónleikarnir í kvöld verða í Hömrum og hefjast kl. 20:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur