Í Tónlistarskólanum hljómar nú úr hverri stofu jólatónlist. Nemendur æfa af kappi fyrir jólatónleika skólans sem hefjast í kvöld 14. Des. Á tónleikunum koma fram rúmlega 200 nemendur skólans í einleik, samleik og söng. Það er mikill erill í skólanum þessa dagana enda börnin full tilhlökkunar fyrir jólin. Þá er gott að geta sest niður og spilað jólalögin. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og á tónleikunum spila nemendur á öllum stigum.
Tónleikar skólans eru eru 7 að þessu sinni og fara fram í Hömrum, tónleikasal skólans.
Jólatónleikar I mánudaginn 14. des. kl. 19:30
Jólatónleikar II þriðjudaginn 15. des. kl. 18:00
Jólatónleikar III þriðjudaginn 15. des . kl. 19:30
Jólatónleikar IV miðvikudaginn 16. des. kl. 18:00
Jólatónleikar söngnema og öldunga miðvikudaginn 16. des kl. 20:00
Tónlistarskóli Ísafjarðar starfrækir tvö útibú, á Flateyri og Þingeyri og vitaskuld eru einnig jólatónleikar þar. Á Flateyri verða tónleikarnir miðvikudaginn 16. des. kl. 17:00 en þeir fara fram í mötuneyti Arctic-Odda.
Jólatónleikar útibúsins á Þingeyri verða í Félagsheimilinu sunnudaginn 20. des. og hefjast þeir kl. 17:00.
Nýverið var ljósabúnaður í Hömrum endurnýjaður og er mikil prýði af nýju lýsingunni. Afrakstur Jólatorgsölu skólans rann óskiptur í endurnýjunina, en betur má ef duga skal og verður tekið við framlögum á tónleikum skólans því margt smátt gerir eitt stórt.
Bæjarbúar allir eru hjartanlega velkomnir á jólatónleika skólans til að sjá og heyra æsku bæjarfélagsins spila jólalögin.