Af óviðráðanlegum ástæðum hefur sýningum á óperettueinleiknum „Eitthvað sem lokkar og seiðir…" verið frestað til haustsins. Einleikurinn fjallar líf og starf isfirsku söng- og leikkonunnar Sigrúnar Magnúsdóttur sem nefnd var „óperettustjarna Íslands".
Það var hinn atorkusami Elfar Logi Hannesson sem samdi handritið og er leikstjóri sýningarinnar en óperusöngkonan Sigrún Pálmadóttir fer með hlutverk nöfnu sinnar og nýtur aðstoðar Beötu Joó píanóleikara í söngvunum, sem fluttir eru. Þar má heyra lög úr mörgum þeirra óperettna sem Sigrún Magnúsdóttir tók þátt í s.s. Bláu kápunni, Nitouche, Leðurblökunni, Brosandi land, Í álögum o.fl.
Það er félagið Ópera Vestfjarða sem stendur að sýningunni og er þetta fyrsta verkefni félagsins. Það var stofnað til að vinna að auknum áhuga á óperutónlist og hugsanlegum óperuflutningi á svæðinu.
Verkefnið nýtur styrkja og stuðnings frá Menningarráði Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, Tónlistarskóla Ísafjarðar, Kómedíuleikhúsinu o.fl.