Breytingar á kennaraliði

24. ágúst 2013 | Fréttir

Óvenju miklar breytingar verða á kennaraliði Tónlistarskóla Ísafjarðar nú í haust. Eins og fram kemur annars staðar á síðunni leysir Ingunn Ósk Sturludóttir söngkennari Sigríði Ragnarsdóttur skólastjóra af í námsleyfi hennar.

Dagný Arnalds píanókennari á Ísafirði og Flateyri er á leið í barneignaleyfi og mun ekki kenna í vetur nema örfáum nemendum á Flateyri eftir áramót. Þröstur Jóhannesson hefur fengið ársleyfi frá störfum.

Nemendum Dagnýjar verður dreift á aðra kennara skólans en Rúna Esradóttir hefur verið ráðin í hlutastarf  til að kenna nokkrum þeirra, auk tónfræði og forskóla. Rúna er fyrrum nemandi og kennari við skólann og hlakkar skólinn mjög til að endurnýja samstarfið og kynnin við hana. 

Ágústa Þórólfsdóttir píanókennari kemur aftur til starfa, en hún var í veikindaleyfi í mestallan fyrravetur. Það er mikið tilhlökkunarefni að fá Ágústu aftur í starfsmannahópinn en hennar var sárt saknað í fyrra af bæði nemendum og kennurum.

Þá hefur Sigrún Pálmadóttir óperusöngkona verið ráðin  til að kenna söng í forföllum Ingunnar næsta vetur. Sigrún er í fremstu röð íslenskra söngvara,  hefur um árabil starfað sem óperusöngkona hinu virta óperuhúsi í Bonn í Þýskalandi og sungið þar fjölda stórra hlutverka, komið fram á tónleikum hér heima og erlendis, sungið með Sinfóníuhljómsveit og árið 2008 hlaut Sigrún Grímuverðlaunin sem Söngvari ársins eftir glæsilega frammistöðu sína sem Víóletta í sviðssetningu Íslensku óperunnar á á la Traviata. Skólinn býður hana velkomna til starfa og væntir sér mikils af veru hennar hér vestra.

Ennþá er unnið að því að finna kennara til að kenna á trommur og ekki er búið að finna kennara fyrir alla þá sem sótt hafa um píanó- oggítarnám en vonandi leysist úr því á næstu dögum.

 

'A meðf. mynd er Sigrún Pálmadóttir í hlutverki sínu sem Víóletta í óperunni La Traviata í Íslensku óperunni 2008.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur