Píanóhljómsveitin hlaut ÍSMÚS-verðlaunin

15. apríl 2013 | Fréttir

Hljómsveit píanónemenda Beötu Joó hlaut í gær hin eftirsóttu og sérstöku verðlaun NÓTUNNAR og Tónlistarsafns Íslands fyrir frumlegasta atriðið tengt honum íslenska tónlistararfi. Bjarki Sveinbjörnsson forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands afhenti verðlaunin á Lokahátíð Nótunnar í gær, fyrir troðfullum Eldborgarsal þar sem saman voru komnir mörg hundruð tónlistarnemar og tónlistarkennarar ásamt mörgum helstu forkólfum íslensks menningarlífs með Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra í fararbroddi. Bjarki lét sér tíðrætt um frjótt og gróskumikið tónlistarlíf hér vestra og minntist þar sérstaklega Ragnars H. Ragnar skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar og frumkvöðuls í tónlistarkennslu á Íslandi.

 

Hljómsveit píanónemenda er skipuð átta nemendum Beötu Joó, fjórum stúlkum og fjórum piltum á aldrinum 14-20 ára. Þau eru fæest í framhaldsstigi á píanó og í atriðinu léku þau öll á píanó en einnig á ýmis önnur hljóðfæri, flautu, saxófón, fiðlu, selló, gítar og harmóníku.

Flytjendurnir eru þessir:

Arona Ottó Jóhannsson, píanó og selló

Davíð Sigvhvatsson, píanó pg saxófónn

Elvar Ari Stefánsson, píanó og rafgítar

Hanna Lára Jóhannsdóttir, píanó og þverflauta

Hilmar Adam Jóhannsson, píanó og fiðla

Kristín Harpa Jónsdóttir, píanó og harmóníka

Marelle Maeekalle, píanó og þverflauta

Sunna Karen Einarsdóttir, píanó, fiðla og harmóníka

Verkið sem þau fluttu kalla þau „Krummi International – Hommage à Victor Borge“ en það er sett saman úr brotum úr mörgum frægum tónverkum, Tunglskinssónötunni, Sverðdansinum, Mínútuvalsinum og Noktúrnu e.Chopin, cís-moll prelúdíu Rachmaninoffs, Clair de lune e.Debussy o.fl. Nemendurnir ófu síðan íslenska þjóðlagið Krummi svaf í klettagjá saman við þessi brot á listilegan, fjölbreyttan ogoft óvæntan hátt og nýttu til þess ýmis hljóðfæri, þótt flyglarnir tveir væru alltaf í aðalhlutverki, en á þá léku þau tvíhent, fjórhent, sexhent og átthent allt eftir þörfum. verkið er tileinkað minningu hins mikla danska tónlistargrínista, Victor Borge.

Óhætt er að segja að atriðið þeirra hafi vakið gífurlega hrifningu og eftirtekt enda ólíkt öllu öðru sem var á dagskrá þessarar glæsilegu lokahátíðar Nótunnar. Nemendurnir léku allt utanbókar og af miklu öryggi og lífleg framkoma þeirra var skemmtileg og öllum til mikils sóma.