Ísfirskir tónlistarnemar á faraldsfæti

9. apríl 2013 | Fréttir

Um næstu helgi, sunnudaginn 14.apríl nk., fer fram Lokahátíð NÓTUNNAR, uppskeruhátíðar íslenskra tónlistarskóla. Í Eldborgarsal Hörpu í Reykjavík.
Á tónleikunum verða 24 tónlistaratriði, víðs vegar að af landinu, sem valin voru laugardaginn 16.mars á fernum svæðistónleikum á Ísafirði, Egilsstöðum, Reykjavík og Selfossi. Af þremur tónlistaratriðum sem valin voru til þátttöku í Eldborgartónleikunum  af Vesturlandi og Vestfjörðum koma tvö frá Tónlistarskóla Ísafjarðar, Skólakór Tónlistarskóla Ísafjarðar og Hljómsveit píanónemenda. 
Skólakórinn er skipaður 13 ungmennum á aldrinum 13-20 ára, sem eru flest söng- eða hljóðfæranemar í skólanum. Stjórnandi er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir en verkið sem þau flytja er Gloria eftir danska tónskáldið Michael Bojesen.
Hljómsveit píanónemenda er skipuð 8 nemendum Beötu Joó, 4 stúlkum og 4 piltum á aldrinum 14-20 ára. Verkið sem þau flytja kalla þau „Krummi International – Hommage à Victor Borge“ en það er samsetningur úr brotum úr nokkrum frægum tónverkum á borð við Tunglskinssónötuna, cís-moll prelúdíu  Rachmaninoffs, Clair de lune Debussys o.s.frv. Nemendurnir ófu síðan islenska þjóðlagið Krummi svaf í klettagjá saman við þessi brot á fjölbreyttan og stundum óvæntan hátt og á mismunandi hljóðfæri.  en í atriðinu leika þau öll á píanó en einnig á önnur hljóðfæri, flautu, gítar, saxófón, fiðlu, selló og harmóníku.  Verkið er tileinkað minningu Victor Borge, sem var frægasti tónlistargrínisti sem uppi hefur verið. Beáta Joó hefur yfirumsjón með þessu verkefni og hefur séð um þrotlausar æfingar hópsins á undanförnum vikum.
Tónlistarkrakkarnir hafa fengið fjárhagslegan stuðning til fararinnar frá ýmsum fyrirtækjum og einstaklingum í Ísafjarðarbæ og vill skólinn koma á framfæri sérstökum þökkum fyrir það.

Lokahátíðin í Eldborg næsta sunnudag er gríðarlega stór og viðamikill viðburður.  Dagskrá tónleikanna er einstaklega fjölbreytt og vönduð, einleikur á ýmis hljóðfæri og samleikur í fjölbreyttum samsetningum. Kynnir á tónleikunum verður Felix Bergsson.
Dagskráin er þrískipt: Tónleikar nemenda í grunn- og miðnámi hefjast kl. 11.30, tónleikar nemenda í mið- og framhaldsnámi hefjast kl. 14 og lokaathöfnin hefst kl. 16.30, en þar verða þátttakendum afhent viðurkenningarskjöl og tilkynnt um þau atriði sem hljóta Nótuna 2013. Í tónleikahléum er flutt tónlist í opnum rýmum Hörpunnar, þ.e. á göngunum, í anddyrinu og víðar og hljómar því Harpan af söng og gleði íslenskrar æsku allan liðlangan daginn.
Sérstök valnefnd hefur það hlutverk að velja níu framúrskarandi atriði af þessum tvennum tónleikum og hreppa þau verðlaunagrip Nótunnar 2013. Jafnframt mun valnefndin útnefna besta atriði hátíðarinnar og fær viðkomandi tónlistarskóli afhentan farandgrip Nótunnar. Valnefndina skipa að þessu sinni Arna Kristín Einarsdóttir, tónleikastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Högni Egilsson, tónlistarmaður og Peter Máté, píanóleikari.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um hátíðina á facebook http://www.facebook.com/Notan2012?fref=ts og á heimasíðu hennar www.notan.is. Efnisskrá lokatónleika Nótunnar er aðgengileg þar undir „lokatónleikar" á linknum „þátttakendur". Þrettán tónlistaratriði verða flutt á fyrri tónleikunum sem hefjast kl. 11:30 (Skólakórinn mun syngja um kl. 12:30) og ellefu atriði verða á efnisskrá seinni tónleikanna sem hefjast kl. 14:00 (Hljómsveit píanónemenda mun væntanlega leika um kl. 14:30.)
Ísfirðingar sem eru staddir eru í Reykjavík á sunnudag eru hvattir til að kíkja við í Hörpunni og fylgjast með þessum skemmtilega viðburði og styðja „okkar fólk“.
Hægt er að sjá upptökur af ísfirsku atriðunum á youtube: http://www.youtube.com/watch?v=9-QOQun7c6w og http://www.youtube.com/watch?v=_MXPq-ZHUGw en þessar upptökur voru gerðar á æfingum fyrir nokkrum vikum.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur