Velheppnaðir svæðistónleikar NÓTUNNAR

18. mars 2013 | Fréttir

Svæðistónleikar NÓTUNNAR, uppskeruhátíðar tónlistarskóla, voru haldnir í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, sl.laugardag 16.mars. Svæðistónleikarnir fóru fram fyrir fullu húsi og voru tónlistaratriðin 18 að tölu fjölbreytt og metnaðarfull, einleikur og einsöngur, samleikur ólíkra hópa, og tónlistin allt frá 18.öld til nútímans, sum lögin frumsamin eða unnin af nemendunum sjálfum.. Tónlistarnemarnir sem fram komu voru 58 talsins frá 6 tónlistarskólum, Akranesi, Borgarfirði, Stykkishólmi, Súðavík, Ísafirði og Bolungarvík. Gestirnir frá Vesturlandinu voru 35 talsins, bæði nemendur, kennarar og foreldrar og voru þeir ákaflega ánægðir með allar móttökur hér á Ísafirði. Þau fengu inni í Grunnskólanum þar sem þeim var ákaflega vel tekið og þeim fannst allur aðbúnaður og skipulag þessarar umfangsmiklu tónlistarhátíðar til fyrirmyndar. 

Tónleikarnir voru allflóknir í framkvæmd þar sem atriðin voru svo ólík og mörg þeirra þurftu alls konar tækniútbúnað. Tækni- og upptökumenn á tónleikunum voru þeir Önundur Hafsteinn Pálsson og Haraldur Ringsted Steingrímsson, en þeir nutu aðstoðar tónlistarkennaranna í Bolungarvík og á Ísafirði auk kennara frá hinum stöðunum. Ljósmyndari á tónleikunum var Páll Önundarson.

Vonandi verður innan tíðar hægt að nálgast myndir og upptökur af tónleikunum.

Undirbúningshóp Vestur-Nótunnar að þessu sinni skipuðu þau Hulda Bragadóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, Selvadore Rähni skólastjóri Tónlistarskólans í Bolungarvík og Sigríður Ragnarsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar.

 

 

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur