Píanóveisla – Codispoti á fimmtudagskvöld

8. mars 2013 | Fréttir

Ítalski píanósnillingurinn Domenico Codispoti heldur einleikstónleika í Hömrum fimmtudagskvöldið 14. mars kl. 20.00. Á glæsilegri efnisskrá eru verk eftir Francesco Antonioni, César Franck, Federico Mompou og síðast en ekki síst hin fræga h-moll píanósónata eftir Franz Liszt.
Tónleikarnir á fimmtudagskvöld eru 2.áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á yfirstandandi starfsári. Áskriftarkort gilda, en einnig eru seldir miðar við innganginn á kr.2.000, 1.500 fyrir eldri borgara. Skólafólk 20 ára og yngra fær ókeypis aðgang að tónleikunum.

Codispoti hefur tvisvar áður haldið tónleika á Ísafirði, fyrst árið 2000 og aftur í febrúar 2009, en þá hélt hann einnig meistaranámskeið fyrir píanónemendur. Codispoti er mikill Íslandsvinur  og hefur oft haldið tónleika á Íslandi og lék einnig einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2001.
Domenico Codispoti fæddist árið 1975 í Catanzaro í Calabria á Suður-Ítalíu. Eftir glæsilegan námsferil gerði hann víðreist og hefur hann haldið einleikstónleika og leikið með virtum sinfóníuhljómsveitum á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og Asíu.
Codispoti hefur hvarvetna hlotið lof áheyrenda og gagnrýnenda fyrir leik sinn og hefur hann unnið til fjölda verðlauna. Hann hefur verið fenginn til að dæma í alþjóðlegum píanókeppnum og hin síðari ár hefur hann fengist í auknum mæli við að leiðbeina nemendum á masterclass-námskeiðum.
Domenico Codispoti hefur leikið inná tvo geisladiska. Sá fyrri kom út árið 2010 með verkum eftir Chopin og Schumann og sá síðari árið 2011 á vegum útgáfufyritækisins Odradeks þar sem finna má verk eftir Franz Liszt og Enrique Granados

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur