Helga Margrét Marzellíusardóttir, ung ísfirsk tónlistarkona, var einsöngvari í flutningi Háskólakórsins og Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins á Messu í As-dúr eftir Franz Schubert á tónleikum í Langholtskirkju sunnudaginn 25.nóvember.Stjórnandi var Gunnsteinn Ólafsson en aðrir einsöngvarar voru Hildigunnur Einarsdóttir alt, Hlöðver Sigurðsson tenór og Jóhann Kristinsson bassi.Tónleikarnir verða endurteknir þriðjudagskvöldið 27.nóvember.
Helga Margrét stundaði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar um árabil, fyrst á píanó hjá Sigríði Ragnarsdóttur og síðar söng hjá Ingunni Ósk Sturludóttur. Hún lauk framhaldsprófi í einsöng með ágætiseinkunn vorið 2009 og hélt þá einnig einsöngstónleika í Hömrum. Helga Margrét hefur undanfarin ár stundað söngnám við Listaháskóla Íslands þar sem aðalkennari hennar er Elísabet Erlingsdóttir. Hún hefur einnig stundað nám í kórstjórn og starfar sem kórstjóri í Reykjavík, m.a. hjá Hinsegin kórnum.
Tónlistarskól Ísafjarðar óskar þessum nemanda sínum innlega til hamingju með glæsilegan árangur.
Myndin var tekin í lok tónleikanna á sunnudeginum, Helga Margrét er lengst til vinstri.