Frá því í sumar hefur Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar stefnt að því að fara í tónleikaferð í kringum páskana 2013 í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Færeyja. Nú hafa Færeyingarnir farið fram á frest, aðallega vegna tímasetningarinnar sem virðist ekki henta þeim, auk þess sem fjármögnun verkefnisins er enn ekki fullkomlega örugg.
Það er því nokkuð ljóst að flutningur verksins verður ekki á þessu starfsári en vonandi næsta haust.
Aðstandendur Hátíðarkórsins ætla því að hvíla verkefnið fram yfir áramót, meðan farið er yfir þá kosti sem eru í stöðunni, tímasetningar og fleira. Það höfðu margir lýst yfir áhuga á að taka þátt og mikil tilhlökkun komin í gang. Þetta er því talsvert bakslag en reynt verður að taka því með ró og láta ekki deigan síga þótt á móti blási!
Fyrsta æfing kórsins átti að vera annað kvöld, mánudagskvöldi 26.nóvember, en nú er ljóst að ekki verður æft fyrr en komið er nýtt plan, vonandi sem fyrst eftir áramót. Raddprufum sem ekki var lokið er einnig frestað.
Tónlistarskólinn er innilega þakklátur þeim fjölmörgu sem sýnt hafa verkefninu áhuga og stuðning og vonarndi verður allt þetta fólk með með þótt flutningnum seinki.