Maksymilian leikur með Ungsveit Sinfóníunnar

26. september 2012 | Fréttir

 Ungur ísfirskur fiðluleikari, Maksymilian Haraldur Frach, æfir þessa dagana með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en í hljómsveitinni leikur úrval ungra íslenskra hljóðfæraleikara.

Maksymilian er sonur tónlistarhjónanna Januszar og Iwonu Frach sem bæði kenna við Tónlistarskóla Ísafjarðar og eru vel kunn hér vestra af tónlistarstörfum sínum. Hann er aðeins 16 ára gamall en hefur þegar náð einstaklega góðum árangri á fiðluna – lauk framhaldsprófi með ágætiseinkunn árið 2011. Mörgum mun í fersku minni er hann lék fjóra einleikskonserta Vivaldis, ÁRSTÍÐIRNAR, á framhaldsprófstónleikum sínum í nóv. 2011.

 
Markmið Sinfóníuhljómsveitarinnar með námskeiðum Ungsveitarinnar er að þjálfa unga nemendur í hljómsveitarleik á atvinnustigi. Undanfarin þrjú ár hafa tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins safnast saman undir merkjum Sinfóníuhljómsveitarinnar og náð undraverðum árangri undir leiðsögn framúrskarandi hljóðfæraleikara og stjórnenda. Ungsveit SÍ var í fyrra tilnefnd sem Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokki sígildrar samtímatónlistar og klassískrar tónlistar.

 

Ungsveitin kemur fram á tónleikum í Eldborg sunnudaginn 30.september kl. 14. Á dagskránni eru tvö tónverk, Pláneturnar eftir Gustav Holst og Plútó eftir Colin Matthews.
Pláneturnar eru eitt vinsælasta og glæsilegasta hljómsveitarverk 20. aldarinnar. Sjö reikistjörnum er lýst í áhrifamiklu tón máli, allt frá upphafsþættinum Stríðsboðanum Mars til lokaþáttarins, Hins dulræna Neptúnusar, þar sem raddir Stúlknakórs Reykjavíkur óma eins og úr órafjarlægð. Tónlistin hefur hljómað í mörgum kvikmyndum og verið innblástur fyrir fjölda tónskálda. Holst var áhugasamur um stjörnufræði og þannig fæddist hugmynd að verki sem byggði á reikistjörnunum sjö. Árið 2000 samdi Colin Matthews verk um Plútó og tileinkaði hann það minningu Imogen, dóttur Holst sem var samstarfskona Matthews til margra ára.
 
Tónlistarskóli Ísafjarðar er afar stoltur af því að nemandi skólans skuli taka þátt í hinum metnaðarfulla og krefjandi starfi Ungsveitarinnar og þakklátur þeim aðilum sem styrktu Maksymilian til þátttökunnar. 
 
 
 
 
 

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur