Á sunnudaginn kemur 29.apríl kl. 15:00 verða 2. áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á yfirstandandi starfsári í Hömrum. Það er ítalski píanóleikarinn Giovanni Cultrera sem kemur hingað í samvinnu við Félag íslenskra tónlistarmanna og Norræna húsið í Reykjavík. Á efnisskránni eru ýmis þekkt píanóverk eftir Liszt, Tchaikovsky, Mussorgsky (úr myndum á sýningu) og Chopin (noktúrnur, masúrkar og prelúdíur) sem ættu svo sannarlega að gleðja eyru og huga tónlistarunnenda.
Áskriftarkort félagsmanna í Tónlistarfélaginu gilda á tónleikana, en einnig eru seldir miðar við innganginn á kr. 2.000, 1.500 fyrir lífeyrisþega og ókeypis fyrir skólafólk 20 ára og yngri.
Giovanni Cultrera fæddist í Catania á Ítalíu árið 1970. Hann stundaði nám við Superior Institute for Musical Studies “V. Bellini” og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn í píanóleik. Framhaldsnám stundaði hann við International Academy „Euterpe” þar sem hann var í þrjú ár við framhaldsdeild í píanóleik.
Frá árinu 1992 hefur hann hlotið 30 alþjóðleg verðlaun og komið fram á yfir eitt þúsund einleikstónleikum í 25 löndum.
Cultrera kennir við Bellini stofnunina á Ítalíu auk þess að halda meistaranámskeið og fyrirlestra meðal annars í Þýskalandi, Ítalíu og Grikklandi. Cultrera hefur verið í framkvæmda- og dómnefndum yfir 50 tónlistarkeppna víða um heim. Útgáfufyrirtæki hans varðandi útgáfu geisladiska er Eco-dischi.
Tónlistarfélagið heldur 3.áskriftartónleika sína sunnudaginn 20.maí kl. 15.00. Á tónleikunum munu Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Gerrit Schuil píanóleikari flytja undurfagra ljóðaflokka eftir Grieg og Berlioz en þessir tónleikar áttu upprunalega að vera snemma í mars.
Sannkölluð SÖNGVEISLA verður síðan á fjórðu og síðustu áskriftartónleikunum sem verða á annan í hvítasunnu, 28.maí kl. 15:00. Þar koma fram söngkonurnar Hulda Björk Garðarsdóttir sópran, Þóra Einarsdóttir sópran og Auður Gunnarsdóttir alt ásamt ísfirskættaða píanóleikaranum Helgu Bryndísi Magnúsdóttur. Yfirskrift tónleikanna er „Prímadonnur“ og flytja þær tónlist úr óperum og ýmis fræg sönglög ýmist allar saman eða í dúettum og sem einsöngvarar. M.a. verða flutt atriði úr óperunum Töfraflautunni og Brúðkaupi Figarós eftir Mozart, Il trovatore e.Verdi o.fl., en tónleikarnir enda á hinum fræga kattadúett Rossinis.