Dagur tónlistarskólanna var haldinn hátíðlegur víða um land um síðustu helgi, en skólarnir hafa um árabil helgað sér síðasta laugardaginn í febrúar til að kynna hið fjölbreytta og metnaðarfulla starf sem fram fer í tónlistarskólum.
Tónlistarskóli Ísafjarðar blés til tvennra tónleika af þessu tilefni. Fimmtudagskvöldið 23.febrúar voru tónleikar fyrir fullu húsi í Hömrum, sal skólans, þar sem 60 nemendur komu fram aðallega í fjölbreyttum samleiksatriðum. Þarna mátti m.a. heyra blásarasveit byrjenda, píanódúetta, söngdúetta, gítarsamleik, fiðluleik, rokkhljómsveit og 5 hópar píanónemenda léku átthent á tvö píanó.
Á laugardeginum voru síðan haldnir stórtónleikar í Ísafjarðarkirkju , en þar komu einkum fram stærri samleikshópar og dagskráin var á léttu nótunum. Þar léku þrjár lúðrasveitir skólans, Skólalúðrasveitin og Miðsveitin sem eru eingöngu skipaðar nemendum skólans, og Lúðrasveit T.Í., en í henni eru 23 hljóðfæraleikarar, bæði nemendur og reyndir tónlistarmenn, allt undir styrkri stjórn Eistlendingsins Madis Mäekalle. Níu ára gamall fiðlunemandi, Nikodem Frach, heillaði áheyrendur með einsöng en undirleikur var í höndum Strengjasveitar skólans undir stjórn Janusz Frach. Fjórar ungar stúlkur, Hanna Lára Jóhannsdóttir, Kristín Harpa Jónsdóttir, Marelle Mäekalle og Sunna Karen Einarsdóttir, allar nemendur Beötu Joó, slógu í gegn með flutningi sínum á Sverðdansinum, en þær léku saman átthent á píanó. Þrír nemendur Tónlistarskólans í Súðavík, Egill Bjarni Helgason, Eggert Eggertsson og Slavyan Yordanov Yordanov léku við frábærar undirtektir áheyrenda, en þeir munu taka þátt í lokakeppni Samfés sem fram fer í Reykjavík nú um helgina. Lokaatriði og hápunktur tónleikanna var stórhljómsveitin „Ísófónía“ ásamt tveimur kórum skólans og tveimur einsöngvurum, alls um 80 nemendur. Hljómsveitin og kórarnir fluttu 4 lög, m.a. Þakklæti eftir Magnús Kjartansson og Conquest of Paradise eftir Vangelis undir stjórn Bjarney Ingibjargar Gunnlaugsdóttur og Madis Mäekalle, en þau nutu aðstoðar fjölda annarra kennara skólans við útsetningar og æfingar.
Mikið fjölmenni var á tónleikunum í kirkjunni og flytjendum ákaflega vel tekið af áheyrendum sem stóðu upp í lokin til að láta í ljós hrifningu sína.Á myndinni má sjá hluta Ísófóníunnar.