Svæðistónleikar NÓTUNNAR 10.mars

29. febrúar 2012 | Fréttir

Svæðistónleikar NÓTUNNAR, uppskeruhátíðar tónlistarskóla, fyrir Vestfirði og Vesturland verða haldnir í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi laugardaginn 10.mars. nk.

 

Eftir forval í hverjum tónlistarskóla koma fulltrúar skólanna fram á svæðistónleikum sem haldnir eru á fjórum stöðum á landinu: Höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi/Vestfjörðum, Norður/Austurlandi og Suður/Suðvesturlandi. Á svæðistónleikunum velur sérstök dómnefnd nokkur atriði sem fá sérstakar viðurkenningar og örfá atriði sem fá rétt til að leika á lokatónleikum hátíðarinnar sem haldnir verða i Eldborgarsal Hörpu í Reykjavík sunnudaginn 18.mars.

Uppskeruhátíðin NÓTAN er opin öllum tónlistarnemendum og hefur engin aldursmörk. Þátttakendum er skipað í flokka eftir áfangaskiptingu aðalnámskrár tónlistarskóla þ.e. í grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Allar stíltegundir tónlistar og hljóðfærasamsetningar eru gjaldgengar, einungis þarf að taka mið af áfangaskiptingu aðalnámskrár. Þetta er í 3.skipti sem hátíðin er haldin.

 

 

Fulltrúar Tónlistarskóla Ísafjarðar í svæðistónleikunum að þessu sinni eru bræðurnir Nikodem Júlíus Frach og Mikolaj Ólafur Frach.  Nikodem ætlar að keppa í einsöng á grunnstigi og flytur Vókalísu eftir K. Dambski. Undirleikarar eru Maksymilian Haraldur Frach  (fiðla) og Mikolaj Ólafur Frach (píanó). Mikolaj, sem er í framhaldsstigi, spilar hinn fræga Menúett í G-dúr eftir pólska tónskáldið og píanóleikarann Ignacy Paderewski. Paderewski var reyndar ekki síður þekktur og vinsæll sem stjórnmálamaður og var um tíma forsætisráðherra Póllands.

 

 

Skólarnir sem taka þátt í svæðistónleikunum 2012 eru:

Tónlistardeild Auðarskóla í Dölum

Tónlistardeild Súðavíkurskóla

Tónlistardeild Hólmavíkurskóla

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskóli Ísafjarðar

Tónlistarskóli Snæfellsbæjar

Tónlistarskóli Stykkishólms

Tónlistarskólinn á Akranesi

Tónlistarskóli V.Húnvetninga.

 

 

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur