Laugardaginn 22.október kl. 16 verður opnuð í húsakynnum Tónlistarskóla Ísafjarðar sýning um ástsælasta tónskáld þjóðarinnar, Sigfús Halldórsson (1920-1996). Þessi sýning var fyrst sett upp í Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi í fyrra, en þá hefði Sigfús orðið 90 ára hefði hann lifað.
Á opnun sýningarinnar verður stutt umfjöllun um tónskáldið og síðan er öllum viðstöddum boðið að taka þátt í fjöldasöng á vinsælustu Fúsa-lögunum.
Á sýningunni er lesmál, úrklippur, ljósmyndir og myndir af málverkum, textar við nokkur lög, nótur og umfjöllun um nokkra samferðamenn og farið er yfir uppruna, námsár, líf, starf og list Sigfúsar. Þetta er aðgengileg sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Sigfús naut fyrst og fremst virðingar fyrir tónlist sína og meðal frægustu laga hans eru „Dagný“, „Tondeleyó“, „Litla flugan“ og „Vegir liggja til allra átta“.en hann var einnig mikilvirkur og virtur myndlistarmaður.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.