Nú stendur yfir í Tónlistarskóla Ísafjarðar innritun nýrra nemenda og staðfesting umsókna frá í vor.
Námsframboðið er afar fjölbreytt: forskóli, píanó, harmóníka, gítar, bassi, blokkflauta, þverflauta, klarinett, saxófónn, kornett, trompet, básúna, horn,slagverk, fiðla og selló og söngur auk bóklegra greina. Fjölbreyttur samleikur og samsöngur er einnig í boði, kórastarf, lúðrasveitir, strengjasveitir auk ýmissa minni samleikshópa.
Nemendur í 1.-7. bekk geta fengið að sækja hluta tónlistarnámsins í „veltitöflum“ á skólatíma, og nemendur í 8.-10.bekk fá námið metið sem val og menntaskólanemar fá tónlistarnámið einnig metið til valeininga.
Skólinn leigir út ýmis hljóðfæri gegn vægu gjaldi, ókeypis fyrsta námsárið.
Innritun fer fram á skrifstofu skólans að Austurvegi 11, kl. 10-16 næstu daga. Nánari upplýsingar þar, í síma 456 3925 og á heimasíðunni www.tonis.is
Skólasetning fer fram í Hömrum, sal skólans miðvikud. 31.ágúst kl. 18:00. Þar verða flutt ávörp og tónlist.