Söngveisla í Hömrum 18.ágúst

11. ágúst 2011 | Fréttir

 Fimmtudaginn 18.ágúst kl. 20:00 verður sannkölluð söngveisla í Hömrum með listafólki sem allt á rætur sínar að rekja til Vestfjarða. Þetta eru óperusöngvararnir (og hjónin) Kolbeinn Jón Ketilsson tenór og Unnur Astrid Wilhelmsen sópran og píanóleikarinn Helga Bryndís Magnúsdóttir.Efnisskráin er í léttari kantinum, þekkt íslensk og norsk lög, ítalskar kansónur, óperettuaríur og fleira og lofa þau sannkallaðri söngskemmtun.Söngskemmtunin er haldin í samvinnu listafólksins og Tónlistarfélags Ísafjarðar. Aðgangseyrir  er kr. 2.000, en kr. 1.500 fyrir lífeyrisþega og ókeypis fyrir 20 ára og yngri.

Söngskemmtunin er tileinkuð minningu hjónanna Samúels Jónssonar og Ragnhildar Helgadóttur, sem lengi bjuggu á Bjargi við Seljalandsveg. Þau voru afar virk í söng- og menningarlífi Ísafjarðar um áratuga skeið. Ragnhildur hefði orðið 100 ára í júní á þessu ári. en Kolbeinn Jón er einmitt dóttursonur þeirra og fæddist á Ísafirði. Kona hans, Unnur Astrid, er ættuð af Ingjaldssandi og var Marzellíus Bernharðsson skipasmíðameistari afabróðir hennar, en móðir Helgu Bryndísar var Ísfirðingurinn Marta Björnsdóttir. Öll eiga þau, Kolbeinn, Unnur og Helga Bryndís, því sterkar rætur hér fyrir vestan og fjölda ættingja.

 Um listafólkið:

Kolbeinn Jón Ketilsson, tenór, er einn þeirra íslensku söngvara sem gert hafa garðinn hvað frægastan á erlendri grund. Hann hefur sungið flest  stærstu og  kröfuhörðustu hlutverk óperubókmenntanna og komið  fram í mörgum af þekktustu óperuhúsum um víða veröld. Þá hefur hann sungið með fjölmörgum heimsþekktum hljómsveitarstjórum m.a.  Zubin Mehta, Lorin Maazel, Anthony Pappano og Kurt Masur. Meðal hlutverka sem Kolbeinn hefur sungið eru titilhlutverkin í Ævintýrum Hoffmanns,  Tannhäuser, Don Carlo sem og  Radamès  í Aidu, Rodolfo í La Bohéme, Cavaradossi í Toscu, Tristan í Tristan og Isolde, Florestan í Fidelio og mörg fleiri. Hann hefur komið fram í Wiener Musikverein í Vínarborg, Tónlistarhátíðinni í Salzburg, Musikhalle í Hamborg, óperhúsum í München, Dresden, Frankfurt, Genf, Toronto, Napoli, París, Lissabon, Kaupmannahöfn, Helsinki að ógleymdri Íslensku Óperunni í Reykjavík. Kolbeinn söng einsöng á opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpunni undir stjórn Vladimir Ashkenazy í Maí síðastliðnum. Kolbeinn er fæddur á Ísafirði og er þetta í fyrsta sinn sem hann kemur fram á tónleikum í fæðingarbæ sínum.

Unnur Astrid Wilhelmsen sópran, er fædd og uppalin í Noregi en á líka ættir að rekja til Vestfjarða, nánar tiltekið á Ingjaldssand. Hún stundaði tónlistar og söngnám í Reykjavík og við Háskólann í Vínarborg. Unnur hefur sungið víða á Norðulöndum, Austurríki, Sviss, Þýskalandi, Ítalíu, Ungverjalandi, Indlandi, Nepal, Canada, Rússlandi og er nýkomin úr söngferðalagi til Tyrklands og mun syngja í Ástralíu og Sikiley í haust.  Hún hefur sungið við tónlistarhátíðina „Wiener Festwochen“ og „Jeunesse Festival“ í  Vínarborg,  „Liberty Festival“ og „Trinità dei Monti“ í Róm. Hún söng við opnun nýja óperuhússins í Catanzaro á Ítalíu og  hefur sungið á tónleikum á vegum  Sameinuðu þjóðanna (U. N. Women ´s Organisation, U.N.W.O). Þá hefur hún einnig sungið með hljómsveit óperunnar í „Teatro Massimo“  í Palermo, hljómsveit rikisóperunnar í Búdapest, „Wiener Symphoniker“ og „Wiener Opernball-Damenensemble“ en sú hljómsveit sérhæfir sig í Vínar og óperettutónlist . Unnur hefur einnig margoft komið fram í útvarpi og sjónvarpi m.a. hjá NRK, RAI  á Ítalíu og WDR í Þýskalandi.

Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari,  hóf tónlistarnám í Vestmannaeyjum hjá Guðmundi H. Guðjónssyni. Hún fór síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík og naut þar handleiðslu Jónasar Ingimundarsonar og útskrifaðist árið 1987 sem píanókennari og einleikari. Hún stundaði framhaldsnám í Vínarborg og Helsinki. Hún starfaði við Tónlistarskólann á Akureyri frá árinu 1992 og einnig við Tónlistarskóla Dalvíkur og var organisti og kórstjóri í Svarfaðardal og Hörgárdal. Hún hefur verið virk sem píanóleikari, bæði sem einleikari og í kammertónlist, með söngvurum og í CAPUT hópnum. Helga Bryndís hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna auk þess að gera upptökur fyrir útvarp, sjónvarp og geisladiska. Hún starfar nú sem organisti við Grindavíkurkirkju og kennari viðTónlistarskóla Kópavogs


Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur