Stórtónleikar í kirkjunni í kvöld

24. maí 2011 | Fréttir

 Í kvöld, þriðjudagskvöldið 24. maí kl. 19:30, verða sumarlegir og viðamiklir kórtónleikar í Ísafjarðarkirkju.

Þetta eru vortónleikar Barna- og skólakórs Tónlistarskóla Ísafjarðar auk Kvennakórs Ísafjarðar. Börnin eru að uppskera eftir veturinn og á fyrri hluta tónleikanna syngja  þau létt og skemmtileg vorlög, taka fagnandi mót sól og sumri sem sést vel í dag að er handan við hornið. Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir stjórnar kórunum en Hulda Bragadóttir leikur með á píanó.
Eftir stutt hlé verður flutt kórverkið GLORIA eftir Antonio Vivaldi. Það er Kvennakór Ísafjarðar, Skólakór Tónlistarskólans, þrír einsöngvarar og lítil kammersveit sem flytja þetta áheyrilega og skemmtilega verk en það er í hópi þekktustu verka kórbókmenntanna og afar vinsælt. Verkið tekur um halftima í flutningi. Einsöngvarar eru Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, sópran, Dagný Hermannsdóttir, sópran og Ingunn Ósk Sturludóttir, alt, en kammersveitina skipa þau Leslaw Szyszko á blokkflautu, Janusz Frach og Maksymilian Frach á fiðlur og Beáta Joó á orgel. Það er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir sem stjórnar flutningnum.
Aðgangseyrir að tónleikunum er 1500.- og það verður posi á staðnum. 
 
Vonandi lætur enginn tónlistarunnandi þennan merka tónlistarviðburð fram hjá sér fara.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur