Velheppnaðir Chopin-tónleikar nemenda

7. apríl 2011 | Fréttir

 Chopin-tónleikar nemenda Tónlistarskóla Ísafjarðar á miðvikudagskvöld tókust sérlega vel. Þessi mikli tónsnillingur var fæddur árið 1810 en lést 1849, og í fyrra var 200 ára afmælis hans fagnað um allan heim.  Á tónleikunum voru flest verkanna leikin á píanó, enda samdi Chopin mest fyrir það hljóðfæri, en einnig var sungið og leikið á fiðlu og gítara auk þess sem hljómsveitin flutti tvö verk sem útsett höfðu verið fyrir hljómsveitina sérstaklega af þessu tilefni. Þarna mátti heyra mörg kunnugleg verk, s.s. mazurka, pólónesu, etýðu, vals, noktúrnur og prelúdíur, sumt í nýstárlegum búningi. Jónas Tómasson sagði frá ævi tónskáldsins, einkum bernsku og æsku og á tjaldi voru sýndar myndir af Chopin, heimilum hans og ýmsum samferðamönnum.  Tónleikarnir voru mjög vel sóttir og hinu unga listafólki afar vel tekið enda stóðu þau sig vel og léku öll sem einn eins og þau væru atvinnumenn.  Stefnt er að því að halda fleiri slíka "þema"tónleika í framtíðinni. 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur