Sl. föstudag fengu grunnskólabörnin á Þingeyri skemmtilega gesti í heimsókn. Það voru eistneskar tónlistarkonur sem eru þessa dagana á kynnisferð um Ísland, en með þeim léku vinir þeirra, tónlistarhjónin Krista og Raivo Sildoja, sem búsett eru á Þingeyri. Leikið var á ýmis þjóðarhljóðfæri Eistlendinga s.s. kannel, hiiu kannel. Torupill (sekkjapípa), parmupill (gyðingaharpa) og fiðlu. Meðf. myndir voru teknar við þetta tækifæri.
Eistnesku tónlistarkonurnar Leanne Barbo og Marju Varblane hafa leikið þjóðlagatónlist og lagt stund á þjóðdansa síðustu 10 ár og nú eru þær á ferð um Ísland til að kynna sér íslenskar hefðir og jafnframt kynna hefðir sins lands. Þjóðlegur söngur, hljóðfæraleikur og dans eru afar ríkir þættir í eistneskri menningu og sjálfstæðisbarátta Eistlendinga á árunum 1987-1991 hefur oft verið kölluð „Byltingin syngjandi".
Mánudagskvöldið 31.janúar halda Leanne og Marju þjóðlaga- og þjóðdansanámskeið í Félagsheimilinu á Þingeyri og hefst það kl. 20:00. Þar kenna þær þjóðdansa og þjóðlög frá ýmsum löndum. Allir eru velkomnir en námskeiðsgjaldið er kr. 1.000 og 500 kr. fyrir skólabörn.
Miðvikudagskvöldið 2.febrúar verða tónleikar í Hömrum undir yfirskriftinni „Eistneskt þjóðlagakvöld með myndaívafi". Á tónleikunum spila og syngja Leanne Barbo, Laura Barbo og Marju Varblane sem eru þessa dagana á kynnisferð um Ísland, en með þeim leika vinir þeirra, tónlistarhjónin Krista og Raivo Sildoja, sem búsett eru á Þingeyri. Leikið verður á ýmis þjóðarhljóðfæri Eistlendinga s.s. kannel, hiiu kannel. Torupill (sekkjapípa), parmupill (gyðingaharpa) og fiðlu. Þá verður myndum frá Eistlandi varpað á tjald. Tónleikarnir eru um klukkustund að lengd og aðgangseyririnn ( kr. 1.000 og kr 500 fyrir skólabörn) rennur í ferðasjóð tónlistarkvennanna.