Mikil stemmning ríkti á minningartónleikum um tónlistarhjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H. Ragnar sem haldnir voru í Hömrum sl.fimmtudagskvöld. Það var píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson sem lék þar verk eftir Bach og Chopin auk skemmtilegra útsetninga hans sjálfs á nokkrum íslenskum sönglögum. Húsfyllir var á tónleikunum og voru áheyrendur geysihrifnir af lifandi og kraftmiklum leik og framkomu píanóleikarans snjalla og einnig vöktu ummæli hans um verkin og tónskáldin mikla athygli.
Víkingur Heiðar fór einnig fögrum orðum um tónlistarmenningu Ísfirðinga og hældi flyglinum í Hömrum á hvert reipi.