Maksymilian leikur aftur með Ungsveit Sinfóníunnar

24. september 2010 | Fréttir

Ungur ísfirskur fiðluleikari, Maksymilian Haraldur Frach, æfir þessa dagana með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en í hljómsveitinni leikur úrval ungra íslenskra hljóðfæraleikara. Fyrsta æfingin var 18.september en nú um helgina og í næstu viku verður æft stíft á hverjum degi fram að tónleikum í Háskólabíói laugardaginn 2.október kl.17.

Maksymilian er sonur tónlistarhjónanna Januszar og Iwonu Frach sem bæði kenna við Tónlistarskóla Ísafjarðar og eru vel kunn hér vestra af tónlistarstörfum sínum. Hann er aðeins 14 ára gamall en hefur þegar náð mjög góðum árangri á fiðluna auk þess sem hann leikur talsvert á píanó. Maksymilian leikur að sjálfsögðu í strengjasveit T.Í. og í fyrra var hann einnig með í Ungsveitinni sem þá starfaði í fyrsta sinn. Hann hefur ávallt verið í hópi bestu nemenda tónlistarskólans en gefur sér einnig tíma til að stunda önnur áhugamál, s.s. sund og skíði og hann hefur líka mikinn áhuga á eðlisfræði.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands er skipuð um 80 ungmennum og hélt sína fyrstu tónleika í fyrrahaust við gríðarlega góðar viðtökur. Á tónleikum sveitarnnnar að þessu sinni verða flutt tvö stórvirki sinfóníubókmenntanna Nótt á Nornagnípu eftir Músorgskíj og Sinfónía nr. 4 eftir Tsjajkovskíj. Rumon Gamba, fyrrum aðalstjórnandi SÍ, stjórnar námskeiðinu og tónleikunum eins og í fyrra.

Prufuspil voru haldin fyrir öll hljóðfæri í maí sl. en til að komast í Ungsveitina þarf hver og einn nemandi að standast inntökupróf frammi fyrir meðlimum Sinfóníuhljómsveitarinnar, og er leitast við að láta allt ferlið endurspegla það sem tíðkast í heimi atvinnumennskunnar í tónlist. Nemendur þjálfa undir leiðsögn okkar fremstu hljóðfæraleikara, og tónleikarnir eru afrakstur langra og strangra æfinga. Þetta er einstakt tækifæri til að sjá íslenska æsku takast á við stórkostleg og krefjandi sinfónísk tónverk með glæsibrag.

Tónlistarskólinn óskar Maksymilian og fjölskyldu hans til hamingju með glæsilegan árangur og  er stoltur af þessum efnilega nemanda.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur