Tónlistarhátíðin Við Djúpið hefst í næstu viku, frá þriðjudegi til sunnudags.
Opnunartónleikar hátíðarinnar eru á þriðjudagskvöld 22.júní í Hömrum kl. 20:00. Þar koma fram Sif Tuliníus fiðluleikari og Árni Heimir Ingólfsson píanóleikari með skemmtilega dagskrá. Fjöldi skemmtilegra tónleika er á hátíðinni. Á miðvikudagskvöld syngur kammerkórinn CARMINA í Ísafjarðarkirkju undir stjórn Árna Heimis, á fimmtudagskvöld leikur norrænn blásarakvintett í Hömrum, á föstudagskvöld leikur píanóleikarinn Andrew Quartermain ásamt fleirum í Hömrum (áskriftartónleikar Tónlistarfélagsins), á laugardag kl. 17:00 heldur óperusöngkonan Janet Williams ásamt fleirum tónleika í Hömrum, og á sunnudag kl. 17:00 eru lokatónleikar hátíðarinnar, norrænn blásarakvintett flytur ný verk ungra tónskálda.
Þá er fjöldi annarra tónleika og uppákoma, morgun- og hádegistónleikar í anddyri grunnskólans og í Bryggjusal Edinborgarhúss, nemendatónleikar o.s.frv.
Hægt verður að kaupa sérstakan HÁTÍÐARPASSA á hagstæðu verði sem veitir aðgang að öllum viðburðum hátíðarinnar, tónleikum og áheyrn að námskeiðunum.
Heimasíða hátíðarinnar er www.viddjupid.is og þar má finna allar nánari upplýsingar um hátíðina.