Útskriftartónleikar Eyrúnar Arnarsdóttur í Reykjavík

20. apríl 2010 | Fréttir

Suðureyrska tónlistarkonan og píanóleikarinn Eyrún Arnarsdóttir útskrifast úr Tónlistarskóla FÍH nú í vor, ein af 5 útskriftarnemum skólans. Eyrún heldur útskriftartónleika í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík  laugardaginn 24. apríl kl. 17:00. Á fjölbreyttri efnisskrá tónleikanna eru verk eftir Bach, Chopin, Beethoven, Prokofiev o.fl., en einnig verk eftir hana sjálfa.

Meðleikarar Eyrúnar á tónleikunum eru Arnór Dan Arnarson, söngur, Emma Ævarsdóttir, bakrödd, Hjörtur Steinarsson, gítar, Vignir Rafn Hilmarsson, bassi, Friðþjófur Blöndal, trommur og Ísfirðingurinn Smári Alfreðsson á saxófón.

Eyrún hóf nám í Tónlistarskóla Ísafjarðar haustið 1998 og var nemandi skólans allt til hausts 2005, er hún flutti til Reykjavíkur. Kennarinn hennar hér vestra var Iwona Kutyla. Eyrún var alla tíð í hópi bestu nemenda skólans, lék á fjölda tónleika og var m.a. fulltrúi skólans í píanókeppni EPTA haustið 2003.

Eyrún stundaði píanónám einn vetur í Tónlistarskólanum í Reykjavík en fór síðan í Tónlistarskóla FÍH þar sem hún hélt áfram píanónámi hjá Svönu Víkingsdóttur og fór einnig að læra jasssöng hjá Jóhönnu Linnet.

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar óskar Eyrúnu til hamingju með glæsilegan áfanga og allra heilla í framtíðinni.

Einnig hvetur skólinn áhugafólk um vestfirska tónlistarmenningu að sækja tónleikana og hlýða á þessa ungu listakonu sem á eflaust eftir að setja mark sitt á íslenskt tónlistarlíf í framtíðinni.