Laugardaginn 2. nóvember býður ungur ísfirðingur, Mikolaj Ólafur Frach, til píanótónleika í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Á tónleikunum mun Mikolaj leika fjölbreytta dagskrá eftir Bach, Beethoven, Schumann, Chopin, Tchaikovsky og Moszkovsky.
Mikolaj er sonur tónlistarhjónanna Iwonu og Januszar Frach, sem bæði kenna við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Hann hóf píanónám hjá móður sinni aðeins fimm ára gamall og hefur hún verið aðalkennari hans frá upphafi. Hann er einn af yngstu nemendum skólans sem tekið hafa grunnpróf í píanóleik, en því lauk hann árið 2009. Hann tók síðan miðpróf á sama hljóðfæri árið 2011 með hæstu einkunn. Hann vinnur nú að framhaldsprófi, sem hann stefnir á að þreyta fljótlega.
Mikolaj hefur sótt píanónámskeið á Íslandi og í Póllandi og stefnir að því að taka þátt í píanókeppnum erlendis.
Mikolaj tekur virkan þátt í viðburðum innan Tónlistarskóla Ísafjarðar bæði einn og í samspili með öðrum. Hann leikur með á píanó í báðum strengjasveitum skólans auk þess að spila í tríói með bræðrum sínum. Þeir hafa komið víða fram á Íslandi og haldið fjölda tónleika í Kraká í Póllandi.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Mikolaj hlotið fjölda viðurkenninga fyrir píanóleik sinn og má þar nefna annað sæti í Frederic Chopin Interpretation Competition í Reykjavík árið 2010. Hann var einnig valinn fulltrúi Vesturlands í framhaldsflokki til að koma fram á úrslitatónleikum Nótunnar árið 2012 í Hörpu og spilaði til fimm manna úrslita í píanókeppni Epta, sem haldin var í Reykjavík árið 2012.
Mikolaj lætur sér ekki nægja píanóið heldur stundar einnig gítarnám hjá Sigurði Friðrik Lúðvíkssyni við Tónlistarskóla Ísafjarðar og hefur mikinn áhuga á jazztónlist. Þess má geta að hann æfir bæði sund og gönguskíði af kappi með góðum árangri.
Tónleikarnir á laugardaginn hefjast kl. 16:00, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!