Nemendatónleikar framundan

18. mars 2009 | Fréttir

UM næstu helgi verður Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur um land allt til að vekja athygli almennings og stjórnvalda á því mikla starfi, sem fram fer í tónlistarskólunum.

Á Ísafirði verður blásið til hinnar árlegu ,,Tónlistarhátíðar æskunnar”, en miðsvetrartónleikar hafa verið haldnir í skólanum svo  lengi sem elstu menn muna.

Tónleikarnir á Ísafirði verða tvennir með afar fjölbreyttri dagskrá, viðamiklir tónleikar með mismunandi efmisskrám. Á dagskránni kennir margra ólíkra grasa, gömul tónlist og ný, klassísk og poppuð, einleikur og samleikur – hljómsveitir, kvartettar, tríó, dúettar – fjölbreytninni eru engin takmörk sett. Miðsvetrartónleikar eru einnig haldnir í útibúum skólans, en  tímasetningar þeirra verða kynntar síðar.

 

Tónleikarnir í Hömrum á Ísafirði verða sem hér segir:

  • Fimmtudagskvöldið   26.febrúar     kl. 19:30 
  • Laugardaginn          28.febrúar      kl. 16:00  

   

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og öllum heimill, enda ekki hvað síst haldnir til kynningar á starfi skólans fyrir foreldra og aðra velunnara. Styrktarsjóður skólans selur léttar veitingar í tónleikahléi.

 

Nemendur mega og eiga að bjóða eins mörgum gestum og þeir vilja, pabba og mömmu, systkinum, afa og ömmu o.s.frv. og vonandi láta engir foreldrar það fram hjá sér fara, ef barnið þeirra er að koma fram á opinberum tónleikum.

Það er stórviðburður í lífi barnsins og því fylgir talsvert álag svo barnið þarf á öllum stuðningi foreldranna að halda. Um leið skal þó bent á að ekki er æskilegt að koma með mjög lítil börn á tónleika – þau skemmta sér oftast ekki vel nema fyrstu mínúturnar og geta truflað systkini sín, meðan þau spila, jafnvel sett þau út af laginu og þar með gert að engu strangan undirbúning og tilhlökkun!

Tónleikalögin eru væntanlega tilbúin, og foreldrar eru hvattir til að fylgjast með því að börnin undirbúi sig af kostgæfni og samviskusemi, mæti stundvíslega á æfingar og tónleika og hafi samband við kennarann, ef eitthvað kemur upp á. Foreldrum skal einnig bent á að hrós og umbun fyrir góða frammistöðu er ekki síður nauðsynleg í tónlistinni en í íþróttunum. Kaupa smágjöf, bjóða upp á ís, pizzu, vídeókvöld o.s.frv.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur