Kynning

30. janúar 2018 | Um skólann

Tónlistarskóli Ísafjarðar er einn af elstu tónlistarskólum landsins. Hann var stofnaður árið 1948 að tilhlutan Tónlistarfélags Ísafjarðar og þó einkum fyrir frumkvæði Jónasar Tómassonar, tónskálds, organista og bóksala á Ísafirði. Áður hafði Jónas stofnað tónlistarskóli haustið 1911, sem mun hafa verið fyrsti tónlistarskóli landsins, en sá skóli hætti störfum vorið 1918 eftir frostaveturinn mikla.
Markmið Tónlistarskóla Ísafjarðar hefur frá upphafi verið að veita almenna tónlistarfræðslu, einkum í hljóðfæraleik, og vinna að eflingu tónlistarlífs á Ísafirði með ýmsu móti. Í reglugerð skólans segir m.a. að skólinn skuli:

  • kenna sem flestar greinar tónlistar, þar sem börnum, jafnt sem fullorðnum, gefst kostur á að stunda tónlistarnám
  • efla sköpunargleði og hugmyndaflug nemenda
  • leggja áherslu  á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik, kór- og hljómsveitarstarfi
  • búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist

Engin skilyrði eru sett um aldur né tónlistarkunnáttu, en námið krefst góðrar ástundunar og heimavinnu.  Í tónlistarnámi eru kennslustundir færri og heimavinna meiri en í almennum skólum, enda er áhugi og stuðningur fjölskyldunnar við tónlistarnemann ómetanlegur og raunar ómissandi.

Skólinn starfar nú á þremur stöðum í Ísafjarðarbæ, á Ísafirði, Flateyri og Þingeyri Nemendur eru hátt á þriðja hundrað en auk þess fjölmargir eingöngu í kór eða lúðrasveitum skólans.
Kennarar eru 19 talsins af ýmsum þjóðernum.

Kennt er á píanó og harmóníku, fiðlu og selló, gítar, rafgítar, bassa og slagverk, blokkflautur, þverflautu, klarinett, saxófón, trompet, básúnu, horn auk einsöngs. Þá eru kenndar ýmsar tónfræðigreinar, tónfræði, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsaga.

Samleikur og samsöngur setja mikinn svip á skólastarfið, sönghópar, strengjasveitir, lúðrasveitir og ýmsir minni hópar eftir því sem tilefni er til.
Mikil samvinna er við grunnskóla og framhaldsskóla á svæðinu. Nemendur í1.-7.bekk Grunnskólans fá að sækja hljóðfæratíma á skólatíma og nemendur í 9. og 10.bekk geta tekið tónlistarval við skólann. Við Menntaskólann á Ísafirði er tónlistarnám metið til valeininga og þar er einnig starfrækt tónlistarbraut. Á hverju fara einn eða fleiri nemendur skólans til framhaldsnáms í tónlist við Listaháskóla Íslands, Tónlistarskóla FÍH eða Söngskólann í Reykjavík.

Eitt aðaleinkenni skólans er hin mikla virkni hans í samfélaginu. Flestar fjölskyldur í bænum hafa átt börn í skólanum og tónlistarnám er talinn eðlilegur þáttur uppeldis.

Fjölbreytt og viðamikið tónleikahald er sterkur þáttur og lögð er rík áhersla á að allir fá að spila á tónleikum.

Þá koma nemendur og kennarar oft fram við ýmis önnur tækifæri, í kirkjunni, hjá félagsstarfi eldri borgara, á heilbrigðisstofnunum, skólum og ýmsum félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum.

Auk hinnar hefðbundnu kennslu hefur Tónlistarskóli Ísafjarðar staðið fyrir stórum menningarverkefnum, ýmist einn eða i samvinnu við aðra aðila. má þar nefna söngleikjauppfærslur í samvinnu við Litla leikklúbbinn: Kardimommubærinnn, Oliver! (1998) og Söngvaseið (2003) en síðastnefnda sýningin rataði inn á fjalir Þjóðleikhússins. Hátíðarkór skólans hefur flutt nokkur stór kórverk með hljómsveit og má þar nefna Messías eftir Händel, kantötur eftir bach, Sálumessu (Requiem) Mozarts. Í janúar 28 flutti Hátíðakórinn Gloriu eftir Poulenc með Sinfóníuhljómsveit Íslands á hátíðartónleikum í tilefni 60 ára afmælis skólans.

Skólinn hefur oftsinnis staðið að tónlistarhátíðum og námskeiðum með alþjóðlegum listamönnum m.a. píanóleikurunum Willem Brons, Ludwig Hoffmann, Philip Jenkins og Ilona Lucz og sellóleikaranum Erling Blöndal Bengtsson. Skólinn er aðili að tónlistarhátíðinni Við Djúpið sem haldin hefur verið á Ísafirði og nágrenni frá árinu 2003, en þar hafa margir frábærir íslenskir og erlendir listamenn haldið námskeið og tónleika.

Tónlistarskóli Ísafjarðar er einn af samstarfsaðilum Listaháskóla Íslands. Fyrsta árs nemar tónlistardeildar LHÍ hafa heimsótt Ísafjörð reglulega og margir útskriftarnemar LHÍ hafa haldið tónleika á Ísafirði.

Tónlistarskólinn er „external partner“ LHÍ í stóru Evrópuverkefni Joint Music Master sem beinist að því að skapa tónlistarfólki fjölbreyttari starfsvettvang.

Tónlistarsalurinn Hamrar er í viðbyggingu við skólahúsið  og er hann mikið notaður fyrir tónleika, ráðstefnur og fleiri samkomur. Hann tekur 150 manns í sæti og þykir  hljómburðurinn sérlega góður. Endurbæturnar á skólanum og nýi tónleikasalurinn eru að miklu leyti unnar fyrir fé, sem safnað hefur verið af styrktarsjóði skólans á síðustu 20 árum, og hafa menn farið fjölbreyttar leiðir í þeirri fjáröflun, haldið styrktartónleika kabaretta, torgsölur og austurlensk kvöld, selt jólakort og blóm og svo mætti lengi telja.

Algengt er að ferðamannahópar komi og skoði hið sögufræga skólahús, sem áður var húsmæðraskóli og tónlistarsalinn Hamra og fái jafnvel tónlistaratriði í kaupbæti. Ferðamönnum þykir mjög til hússins koma og þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram í ekki stærra bæjarfélagi.

Skólinn hefur ávallt notið mikils velvilja bæjarbúa, sem fylgjast vel með starfi hans. Kennarar og nemendur skólans koma fram við ótal tækifæri í bæjarfélaginu..Ísfirsk fyrirtæki hafa verið ötul að styðja við bakið á skólanum og hafa oft veitt styrki til ýmissa viðburða á vegum hans.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur