Sigríður er fædd og uppalin á Ísafirði þar sem hún lagði stund á píanóleik frá unga aldri hjá föður sínum, Ragnari H.Ragnar. Hún hélt tónlistarnáminu áfram við Tónlistarskólann í Reykjavík undir leiðsögn Árna Kristjánssonar píanóleikara og stundaði jafnframt nám við Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi hélt hún til Bandaríkjanna til náms í tónlistargreinum og fornmálum við Lindenwood College í Missouri og lauk þaðan BA-prófi vorið 1971. Á árunum 1976-1978 dvaldi Sigríður í München þar sem hún sótti tíma í tónvísindum og fornmálum við Ludwig-Maximilian háskólann. Sigríður lagði stund á meistaranám í menningarstjórnun við Viðskiptaháskólann á Bifröst á árunum 2004-2006. Hún starfaði sem píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar á árunum 1972-1976 og aftur frá 1979. Hún varð skólastjóri sama skóla árið 1984 og gegnir því starfi enn í dag.
Um áratuga skeið hefur Sigríður tekið virkan þátt í fjölbreyttum tónlistarstörfum á Vestfjörðum. Hún hefur lengi verið undirleikari Sunnukórsins á Ísafirði, komið fram með kórnum á ótal tónleikum og uppákomum og lék m.a. á hljómdiski kórsins.sem út kom fyrir nokkrum árum. Þá hefur hún unnið og leikið með ýmsum fleiri kórum, einsöngvurum og hljóðfæraleikurum, m.a. með Kammersveit Vestfjarða, sem starfaði á Ísafirði og Bolungarvík í nokkur ár. Sigríður hefur einnig verið virk í tónlistarstarfi kirkna hér fyrir vestan, hún var organisti við Ísafjarðarkirkju um þriggja ára skeið og organisti Súðavíkurkirkju 1995-2007. Síðustu áratugina hefur Sigríður átt virka aðild að mörgum stórum menningarverkefnum á Vestfjörðum. Mætti þar nefna tónleikaröðina Sumar í Hömrum (2007-2009), MN- hátíðina (2004), tónlistarhátíðirnar Sellódagar á Ísafirði (2001), Jónmessutónar (1995) og Sumarsólstöðuhátíð (1991), uppfærslur nokkurra stórra kórverka á borð við Messías og Sálumessu Mozarts og uppfærslur á söngleikjunum Oliver! (1999) og Söngvaseið (2003). Sigríður hefur einkum helgað starfskrafta sína eflingu tónlistaruppeldis og tónlistarlífs á svæðinu með það að leiðarljósi að tónlistarkennsla sé mannrækt og að öflug menning sé forsenda byggðar á Vestfjörðum.
Sigríður var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín sumarið 2008 og sama haust var hún útnefnd bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.