Sigríður Jónsdóttir Ragnar og Ragnar Hjálmarsson Ragnar

11. mars 2009 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

Ragnar Hjálmarsson Ragnar (1898-1987)

Ragnar H. Ragnar var fæddur 28. september 1898 á Ljótsstöðum í Laxárdal, SuðurÞingeyjarsýslu. Ragnar lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1920, en fluttist siðan tilKanada og lagði stund á fjölþætt tónlistarnám í Winnipeg. Hann starfaði um árabil sem einleikari og undirleikari í Kanada og Bandaríkjunum, auk þess sem hann var þar mikilvirkur kórstjóri. Þá fékkst hann einnig nokkuð við tónsmíðar, einkum fyrir
einsöngvara og kóra auk útsetninga af ýmsu tagi. Árið 1942 gekk Ragnar til liðs við Bandaríkjaher og var síðan kallaður til starfa á Íslandi sem trúnaðarmaður Bandaríkjastjórnar til ársins 1945. Á stríðsárunum tók Ragnar að sér að stjórna söngflokki Þingeyingafélagsins í Reykjavík og kynntist þá Sigríði Jónsdóttur. Þau gengu í hjónaband 21. júlí 1945 og settust að í bænum Gardar í Norður-Dakota, þar sem þau bjuggu til ársins 1948 er þau fluttust til Ísafjarðar.

 

Ragnar hafði þá ráðið sig sem skólastjóra að hinum nýstofnaða Tónlistarskóla Ísafjarðar. Hann var aðalpíanókennari skólans og kenndi tónfræði, en var jafnframt söngkennari við Barnaskólann og Gagnfræðaskólann á Ísafirði um áratuga skeið, organisti Ísafjarðarkirkju í fjölda ára, auk þess sem hann stjórnaði Sunnukórnum og Karlakór Ísafjarðar. Ragnar var framkvæmdastjóri Tónlistarfélags Ísafjarðar um langt árabil og sá þá ásamt Sigríði, konu sinni, um mestallt tónleikahald á Ísafirði og móttöku tónlistarmanna, sem til bæjarins komu. Undir kraftmikilli stjórn þeirra varð Tónlistarskóli Ísafjarðar öflug menningarstofnun, sem naut virðingar um allt land. Ragnar var kjörinn heiðursborgari Ísafjarðarkaupstaðar árið 1978 fyrir störf að söngmennt og tónlistarmálum í kaupstaðnum. Einnig var hann sæmdur riddarakrossi og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir félags- og menningarstörf. Ragnar gegndi starfi skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar til ársins 1984 og kenndi við skólann þar til hann lést, á aðfangadag árið 1987.

 

Sigríður Jónsdóttir Ragnar (1922-1993)
Sigríður Jónsdóttir var fædd á Gautlöndum í Mývatnssveit 26. júlí 1922. Hún stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan gagnfræðaprófi vorið 1939. Hún stundaði síðan nám við Kennaraskóla Íslands og aflaði sér fullra kennsluréttinda síðar á ævinni. Sigríður hóf kennslustörf við Barnaskólann á Ísafirði árið 1957, kenndi þar allt til ársins 1992, og varð einn ástsælasti kennari Grunnskólans. Hún kenndi einnig tónfræði við tónlistarskólann og studdi mann sinn í einu og öllu er varðaði málefni skólans.

 

Sigríður hafði fjölbreytileg áhugamál og sinnti ýmsum félagsstörfum á Ísafirði. Meðal annars átti hún sæti á framboðslistum Óháðra borgara og Samtaka um Kvennalista, var í Menningarráði Ísafjarðar 1971-1986, lengst af sem formaður, var í stjórn Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða frá 1975 og átti sæti í náttúruverndarnefnd kaupstaðarins í mörg ár. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir félags- og menningarstörf árið 1979. Sigríður féll frá 10.mars 1993.

 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is