Ingunn Ósk Sturludóttir, söngkona og kórstjóri m.m.

4. mars 2015 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

Ingunn Ósk Sturludóttir hóf ung píanónám við Barnamúsíkskólann í Reykjavík. Síðar stundaði hún nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan 8.stigsprófi 1987. Um tveggja ára skeið stundaði Ingunn framhaldsnám í London hjá Valeri Heath-Davies og Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Haustið 1989 hóf hún nám við Sweelinck-tónlistarháskólann í Amsterdam og lauk prófi frá óperu- og ljóðadeild skólans 1992. Aðalkennarar hennar þar voru Cora Canne-Mejer og Margret Honig.

Ingunn hefur haldið fjölda einsöngstónleika hér heima og erlendis, tekið þátt í flutningi á Messíasi eftir Händel og Requiem Mozarts og komið fram með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Ingunn er búsett á Ísafirði, kennir þar söng við Tónlistarskóla Ísafjarðar og var um árabil stjórnandi Sunnukórsins. Ingunn gegndi stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar frá hausti 2013 -ársloka 2014 í forföllum  Sigríðar.