Sjá nánar á heimasíðu Hlífar: http://www.hlifsigurjons.is/
Hlíf Sigurjónsdóttir er fædd í Kaupmannahöfn en ólst upp í Reykjavík. Hún kom fyrst opinberlega fram 11 ára gömul er hún lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún nam fiðluleik hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara við Tónlistarskólann í Reykjavík og fór síðar til framhaldsnáms við Háskólana í Indiana og Toronto og Listaskólann í Banff og nam einnig hjá Gerald Beal fiðluleikara í New York borg.
Á námsárum sínum kynntist hún og vann með mörgum merkustu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinnar, þar á meðal William Primrose, Zoltan Szekely, György Sebök, Rucciero Ricci og Igor Oistrach.
Hlíf hefur haldið fjölda einleikstónleika og leikið með sinfóníuhljómsveitum og kammersveitum víða um Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada. Hún hefur frumflutt mörg tónverk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana.
Hlíf hefur leikið inn á upptökur fyrir útvarp og sjónvarp og nokkra geisladiska við frábæran orðstír. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins gaf geisladisknum 44 Dúó með verkum eftir Béla Bartók fimm stjörnur með orðunum „Þjóðleg innlifun á heimsmælikvarða“. Í ágúst 2008 kom út tvöfaldur geisladiskur með leik hennar á öllum þremur sónötum og þremur partítum eftir Johann Sebastian Bach.
Hlíf starfaði sem fiðlukennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar árin 1981-1983 og aftur veturinn 1984-1985. Hún hefur margsinnis haldið tónleika og námskeið á Ísafirði.