Edda Borg Ólafsdóttir, söngkona, skólastjóri o.fl.

4. mars 2015 | Tónlistarfólk á eða frá Ísafirði og nágrenni

Edda Borg er fædd og uppalin í Bolungarvík en stundaði píanónám hjá Ragnari H. Ragnar við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá  unga aldri, þar til hún fór suður í menntaskóla.

 

Úr Fjölskylda og frændgarður. Morgunblaðið. 20. september 2016, bls. 26-27:

 

Edda Borg Ólafsdóttir 20.09.1966-
… Ekki verður sagt að Edda hafi aldrei farið suður því hún fór einmitt suður, rétt fyrir 16 ára afmæl- ið sitt, og stundaði nám við MH: „Þá fór ég fljótlega að spila í hljómsveitum og hafa atvinnu af tónlist. Ég kynntist manninum mínum í fyrstu hljómsveitinni, giftist honum og við fluttum til Hollywood, þar sem hann var við nám.“
Edda var hljómborðsleikari og söngkona í stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar á Broadway við Álfabakka árið 1982. Hún söng síðan bakraddir fyrir Gunnar og ýmsa aðra tónlistarmenn: „Ég söng m.a. fyrstu Rásar tvö stefin sem spiluð voru í áratugi.“
Edda tók þátt í uppsetningum á tónlistarsýningum hjá Óla Laufdal undir stjórn Gunnars Þórðarsonar, á Broadway í Álfabakka, og á Hótel Íslandi, og þá með Ólafi Gauki. Hún söng bakraddir við fjölda laga í Eurovision, söng bakrödd með Sverri Stormsker í Dublin, með Stefáni Hilmarssyni 1987 og svo með Siggu Beinteins 1994. Hún hefur sungið með Stórsveit Reykjavíkur á tónleikum í Borgarleikhúsinu og í Ráðhúsi Reykjavíkur og sungið á fjölda djasshátíða með eigin hljómsveit.
Edda gaf út fyrstu sólóplötu sína, No Words Needed, sumarið 2013, með eigin lögum og flutti lög af þeirri plötu á djasshátíð sama ár.
Þessa stundina vinnur hún að því að syngja inn á geisladisk með bandaríska hljómsveitarstjóranum Don Randi og að öðrum geisladiski með eigin efni og stefnir að útgáfu hans á afmælisárinu.
Edda stofnaði Tónskóla Eddu Borg haustið 1989 og hefur starfrækt hann og stýrt honum síðan.
Edda var formaður STÍR, Sam- taka tónlistarskóla í Reykjavík, og STS, Samtaka tónlistarskólastjóra á landsvísu…