Skólinn heldur sérstaka foreldradaga í október og síðan aftur á vorönn, en foreldrar eru að sjálfsögðu alltaf velkomnir í skólann til okkar – í spilatíma, á samspilsæfingar og samæfingar og það er skyldumæting foreldra á tónleika, þar sem börn þeirra koma fram.
Skólinn sendir út 3-4 fréttabréf á árinu til að kynna skólastarfið og upplýsa foreldra um viðburði í skólanum. Þau eru ýmist afhent nemendum í skólanum eða send út í tölvupósti. Auk þess koma ýmis minni fréttabréf sem kennarar afhenda nemendum.
Til þess að tónlistarnámið verði ánægjulegt þarf daglegar æfingar heima sem eru nauðsynlegur og í raun undirstaða þess að árangur náist. Ekki þarf að æfa sig svo lengi í hvert sinn – heldur OFT. Uppörvun og hvatning frá foreldrum og umhverfinu yfirleitt getur haft mikið að segja. Eftirlit foreldra með heimaæfingum og vingjarnlegar áminningar þeirra eru mjög æskilegar. Þetta er miklu mikilvægara en að foreldrar kunni sjálfir að lesa nótur eða leika á hljóðfæri.
Það er sjálfsagt að nemandinn mæti í alla tíma nema um veikindi sé að ræða. Sumir nemendur lenda í þeim vítahring að nenna ekki að æfa sig, missa þá áhugann og ná ekki árangri og síðan leiðir eitt af öðru og á endanum gefast þeir upp og hætta. Slíkum vítahring má oft snúa við með samvinnu foreldra og kennara.
Fyrsta skrefið er að kennari og foreldrar ræði saman um vandamálið og finni sameiginlega leiðir til úrlausnar. Það eru til ýmis ráð – öðruvísi verkefni, fastir æfingatímar undir eftirliti, smáheimatonleikar fyrir foreldra og nánustu ættingja – tónlistarklúbbar – betra hljóðfæri – umbun fyrir góðan árangur o.s.frv.