Hamrar

Það var árið 1998 að tímamótaár var í sögu Tónlistarskóla Ísafjarðar, en þá eignaðist skólinn loks þak yfir höfuðið eftir hálfrar aldar starf. Ráðist var í miklar endurbætur á hinu sögufræga Húsmæðraskólahúsi við Austurveg, sem Guðjón Samúelsson teiknaði á sínum tíma. Þar  er nú frábær aðstaða fyrir tónlistarkennslu, ein hin besta á landinu.

Ári síðar var tónlistarsalurinn Hamrar vígður en hann var byggður við skólahúsið á afar smekklegan og hugkvæman hátt. Það var Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt, sem teiknaði salinn og endurbæturnar á gamla húsinu, og naut hann fulltingis Stefáns Einarssonar hljómburðarfræðings til verksins.

Aðstaða

Salurinn tekur 100-150 manns í sæti, allt eftir því hvernig stólum er raðað. Í honum er lítið svið og góð baksviðsaðstaða. Í Hömrum er mikið um tónleikahald, bæði á vegum Tónlistarskóla Ísafjarðar, Tónlistarfélags Ísafjarðar og ýmissa annarra aðila. Þar hafa einnig verið haldnar leiksýningar, afmælis- og brúðkaupsveislur, námskeið, fundir og ráðstefnur af ýmsu tagi. Ljúka allir upp einum rómi um hljómgæði og hljómfegurð salarins, hvort sem um er að ræða tónlist eða talað mál.

Fundir og ráðstefnur

Afar hentugt er að halda fundi og ráðstefnur í Hömrum.  Salurinn er miðsvæðis í gamla bænum og við húsið eru næg bílastæði.. Öll aðstaða innanhúss er til fyrirmyndar, enda fylgja salnum afnot af fleiri herbergjum í skólanum fyrir minni hópa. Einnig geta ráðstefnugestir nýtt sér ýmis tæki skólans, s.s. ljósritunarvél, tölvur og síma. Læknafélag Íslands og Samorka  (samtök raforku, hita- og vatnsveitna) eru í hópi þeirra, sem haldið hafa ráðstefnur í Hömrum.