Hamrar, tónleika og ráðstefnusalur skólans.
Árið 1998 fékk Tónlistarskólinn þak yfir höfuðið eftir hálfrar aldar starf. Ráðist var í miklar endurbætur á hinu sögufræga húsi Húsmæðraskólans Óskar við Austurveg, sem Guðjón Samúelsson teiknaði á sínum tíma. Þar er nú frábær aðstaða fyrir tónlistarkennslu.
Ári síðar var tónlistarsalurinn Hamrar vígður, en hann var byggður við skólahúsið á smekklegan og hugkvæman hátt.
Vilhjálmur Hjálmarsson arkitekt teiknaði salinn og endurbæturnar á gamla húsinu, og naut hann fulltingis Stefáns Einarssonar hljómburðarfræðings til verksins.
Í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarskólans fengu Hamrar andlitslyftingu, SJÁ HÉR.
Aðstaða
Salurinn tekur 100-150 manns í sæti. Í honum er svið og góð baksviðsaðstaða. Í Hömrum eru tveir flyglar og fjölmargir tónleikar haldnir, bæði á vegum Tónlistarskóla Ísafjarðar, Tónlistarfélags Ísafjarðar og ýmissa annarra aðila. Þar hafa einnig verið haldnar leiksýningar, afmælis- og brúðkaupsveislur, námskeið, fundir og ráðstefnur af ýmsu tagi. Í salnum er mjög góður hljómburður.
Fundir og ráðstefnur
Afar hentugt er að halda fundi og ráðstefnur í Hömrum. Salurinn er miðsvæðis í gamla bænum og við húsið eru næg bílastæði. Öll aðstaða innanhúss er til fyrirmyndar.
Hamrar – salarleiga
Þeim, sem áhuga hafa á að leigja salinn Hamra, er bent á að hafa samband við skrifstofu skólans í síma 450 8340 eða á tonis@tonis.is