Vantar nýrri uppfærslu:
alldór Sveinsson er borinn og barnfæddur Hnífsdælingur, sonur hjónanna Ágústu Þórólfsdóttur og Sveins Guðjónssonar. Hann stundaði tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri, fyrst á fiðlu frá árinu 1995 hjá Janusz Frach, en síðar einnig á píanó hjá Beötu Joó. Hann lagði einnig ríka stund á bóklegar greinar, þar sem kennarar hans voru aðallega Jónas Tómasson og Iwona Frach. Halldór var alla tíð afar virkur í kammertónlist og hljómsveitarstarfi af fjölbreyttasta tagi við skólann og var fulltrúi skólans og Ísafjarðarbæjar við fjölmörg tækifæri. Þá kom hann oft fram fyrir hönd Menntaskólans á Ísafirði, m.a. í söngleikjauppfærslum skólans, en hann lauk stúdentsprófi frá MÍ vorið 2008. Halldór hélt glæsilega lokatónleika í Hömrum sama vor og lék þá bæði á fiðlu og píanó. Hann hlaut ýmsar viðurkenningar hér vestra fyrir frábæran árangur í tónlistarnáminu, m.a. verðlaun Ísfirðingafélagsins vorið 2007 og aðalverðlaun skólans vorið 2008.
Haustið 2008 hóf Halldór nám í mennt og miðlun í Listaháskóla Íslands með Peter Maté sem aðalkennara hans á píanó. Hann hefur þó einnig haldið áfram að taka að sér fjölmörg verkefni á fiðluna ásamt því að spila með balkansveitinni Orphic Oxtra.