Hafdís Pálsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann á Ísafirði frá 1994 til 2005. Aðalnámsgrein hennar hefur jafnan verið píanóleikur, fyrstu árin undir leiðsögn Zsuzsönnu Budai, en síðan hjá Beötu Joó, og lauk hún 7. Stigsprófi á píanó vorið 2004. Hafdís hóf nám á selló haustið 1998 og lauk 4. stigi í sellóleik vorið 2004, aðalkennari hennar á selló var Janusz Frach. Hafdís hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, m.a. aðalverðlaun Tónlistarskólans á Ísafirði árið 2001 og verðlaun Ísfirðingafélagsins vorið 2004. Hún tók þátt í píanókeppni EPTA í Salnum í Kópavogi í nóvember 2003 og komst þar í 5 manna úrslit á framhaldsstigi. Hafdís hefur verið virk í félagslífi og tónleikahaldi í gegnum árin, tekið þátt í hljómsveitar- og kórstarfi, söngleikjauppfærslum og komið fram við fjölmörg tækifæri. Hafdís hefur einnig kennt tónfræði og píanóleik við útibú Tónlistarskóla Ísafjarðar á Flateyri og Suðureyri árin 2003-2005.
Hafdís hóf nám við Listaháskóla Íslands haustið 2005 og Peter Máté hefur verið hennar aðalkennari. Skólaárið 2007-2008 var hún skiptinemi í Musikkonservatoriet ved Universitetet I Agder í Kristiansand, Noregi þar sem kennari hennar var Trygve Trædal. Hafdís útskrifaðist með B.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2009 og tveim árum síðar lauk hún meistaragráðu í tónlistarkennslu við sama skóla.
Hafdís hefur lagt stund á píanókennslu við ýmsa skóla á höfuðborgarsvæðinu en starfar nú sem aðstoðarskólastjóri við tónlistarskólann Tónsali í Kópavogi.