Tónlistin var líf hans, bækurnar lifibrauðið

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Jónas Tómasson 1881–1967
Jónas Tómasson fæddist í Fnjóskadal í Þingeyjarsýslu og ólst þar upp, sem og í Einarsnesi í Borgarfirði syðra hjá fósturforeldrum. Þar dvaldist hann fram yfir tvítugt en árið 1903 flutti hann til Ísafjarðar og bjó þar alla tíð síðan.

 

Í fyrstu stundaði Jónas ýmis verslunar- og skrifstofustörf. Sótti hann sér menntun í kvöldskóla og einkatímum þar sem hann hafði ekki átt kost á að sækja barnaskóla í æsku. Veturinn 1909–1910 dvaldi Jónas í Reykjavík og nam orgelleik og söngfræði hjá Sigfúsi Einarssyni, tónskáldi. Einnig sótti hann tíma í Kennaraskólanum og tók söngkennarapróf þaðan um vorið. Var það að hans sögn annað tveggja prófa sem hann tók á lífsleiðinni, hitt var bílprófið sem hann tók 30 árum síðar.

 

Eftir að Jónas kom aftur heim til Ísafjarðar, hafði hann fullan hug á að hafa lifibrauð af tónlistinni. Gerðist hann organisti við Ísafjarðarkirkju haustið 1910 og gegndi því starfi í rúm 50 ár. Einnig kenndi hann söng við Barnaskólann og stofnaði sinn eigin skóla, Tónlistarskóla Ísafjarðar (hinn eldri). Var hann starfræktur frá 1910 til 1918 þegar hann var lagður niður vegna kreppuástands og eldiviðarskorts.

 

Árið 1920 hóf Jónas rekstur bókabúðar sinnar sem varð hans aðalstarf og lifibrauð út starfsævina. Aukastörfin voru eftir sem áður margskonar á vettvangi tónlistar og menningarmála. Sunnukórinn stofnaði hann hann með öðrum árið 1934 og stjórnaði honum lengi. Hann stýrði einnig Karlakór Ísafjarðar í 17 ár, Hlífarkórnum og fleiri kórum auk þess að æfa og stjórna tónlistarflutningi á margskonar samkomum, skemmtunum og leiksýningum í áratugi og kenna nemendum á orgel í einkatímum.

 

Jónas kvæntist árið 1921 ísfirskri stúlku, Önnu Ingvarsdóttur (1900-1943), og starfaði hún ötullega með honum að kirkju- og söngmálum alla tíð meðan heilsa og líf entist. Þau eignuðust þrjá syni. Kominn á efri ár vann hann, að eigin sögn, eitt sitt mesta þarfaverk er hann fékk Ragnar H. Ragnar til að setjast að á Ísafirði. Stofnuðu þeir, ásamt fleirum, Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 1948. Þar kenndi Jónas síðan orgelleik í mörg ár. Í september 1960 var Jónas af bæjarstjórn Ísafjarðar tilnefndur fyrsti heiðursborgari Ísafjarðarkaupstaðar. Hann lést 9. september 1967.

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur