Skólastjórahjónin í Smiðjugötu 5

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Þegar Ragnar og Sigríður fluttu til Ísafjarðar frá Bandaríkjunum haustið 1948 þá blasti við þeim nýtt líf á ókunnum stað en þau grunaði ekki að framundan væri 40 ára þrotlaust brautryðjendastarf í tónlistarkennslu og menningarmálum. Ragnar og Sigríður voru bæði runnin upp úr þingeyskri mold og alin upp í hugsjónaanda aldamótakynslóðarinnar svo að þau áttu margt sameiginlegt þótt aldursmunurinn væri 24 ár.

 

Ragnar fór til Vesturheims árið 1921 til að afla sér menntunar á sviði tónlistar og starfaði að tónlist í Kanada og Bandaríkjunum til ársins 1942. Í stríðinu gekk hann til liðs við Bandaríkjaher og var sendur til Íslands sem trúnaðarmaður Bandaríkjastjórnar. Þá kynntist hann Sigríði sem var við nám og störf í Reykjavík og söng í Þingeyingakórnum sem hann stjórnaði. Þau gengu í hjónaband árið 1945 og fluttu til Bandaríkjanna þar sem þau dvöldu í þrjú ár. Fyrstu áratugina hafði Ragnar einkum tekjur af söngkennslu við Barna- og Gagnfræðaskólann. Tónlistarskólakennslan var mest aukageta enda fékk Ragnar ekki fastar tekjur af tónlistarskólakennslunni fyrr en árið 1966, en hann lét af störfum sem skólastjóri árið 1984. Hann kom víða við í tónlistarlífi bæjarins, stjórnaði Sunnukórnum, Karlakórnum, barna- og unglingakórum, kór Húsmæðraskólans, æfði sönghópa af ýmsu tagi, var organisti Ísafjarðarkirkju í fjölda ára og lék á píanó við ýmis tækifæri.

 

Sigríður hóf kennslustörf við Barnaskólann á Ísafirði árið 1957. Hún kenndi þar til ársins 1992 og varð einn ástsælasti kennari skólans. Sigríður kenndi einnig tónfræði við tónlistarskólann og studdi mann sinn í einu og öllu er varðaði málefni skólans.

 

Heimili Ragnars og Sigríðar að Smiðjugötu 5 á Ísafirði var um áratugaskeið sannkölluð menningarmiðstöð. Fyrstu áratugina var heimilið undirlagt af tónlistarkennslu – svo mjög að börnin á heimilinu fengu æfingaaðstöðu annars staðar í bænum. Um helgar voru samæfingar og æfingar fyrir samæfingarnar. Gestagangur var mikill, nemendur urðu heimagangar auk fjölda annarra bæjarbúa en líka þótti sjálfsagt að þau tækju á móti listamönnum og mörgum fleirum er gestkomandi voru í bænum.

 

Píanókennsla Ragnars þótti snemma mjög árangursrík og varð hann fljótt landskunnur fyrir hana. Hann var mótaður af bandarískum kennsluaðferðum sem voru talsvert frábrugðnar þýska skólanum sem hafði verið ríkjandi á Íslandi til þess tíma. Nemendurnir voru yngri en áður hafði þekkst, kennslubækurnar voru nýstárlegar og allt sem námið varðaði var skráð í sérstakar stílabækur sem fylgdu nemandanum allan veturinn.

 

Nemendurnir voru látnir leika opinberlega bæði á tónleikum og svokölluðum samæfingum sem voru nýnæmi á Íslandi og raunar uppfinning Ragnars. Hann var eitt sinn spurður að því hvort hann kenndi til að búa til litla snillinga, en svarið var. „Nei, en ég kenni öllum einsog þeir væru snillingar!“

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is

Nýlegar færslur