Kórastarf, kammersveitir og hljómsveitir
Kórastarf
Ragnar H. Ragnar stjórnaði barna- og unglingakórum við Barna- og Gagnfræðaskólann á Ísafirði auk þess sem hann æfði kór við Húsmæðraskólann á Ísafirði um áratuga skeið. Veturinn 1985–1986 var í fyrsta sinn stofnaður barnakór við Tónlistarskóla Ísafjarðar og var Margrét Bóasdóttir stjórnandi hans. Alla tíð síðan hefur kórastarf verið mikilvægur þáttur í skólahaldinu og í dag eru þrír kórar starfandi í skólanum. Barnakórinn og Stúlknakórinn æfa reglulega allan veturinn en Hátíðakórinn æfir aðeins þegar sérstök verkefni liggja fyrir. Barna- og stúlknakórarnir hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum og leiksýningum, s.s barnaóperunni Eldmeynni vorið 1988 og söngleiknum Oliver! árið 2003. Stúlknakórinn tók sömuleiðist þátt í kórakeppni á Spáni sumarið 2000.
Hátíðakór Tónlistarskóla
Ísafjarðar kom fyrst fram á páskunum 1999 og flutti þá óratóríuna Messías eftir Händel með hljómsveit atvinnufólks og einsöngvurum. Var það í fyrsta skipti sem slíkt stórvirki tónbókmenntanna var flutt á Vestfjörðum og hlaut það frábærar undirtektir. Stjórnendur voru Beáta Joó og Ingvar Jónasson. Vorið 2001 flutti Hátíðarkórinn Sálumessu Mozarts í Ísafjarðarkirkju og í Neskirkju í Reykjavík. Gloria eftir Poulenc var næsta verkefni kórsins og flutt með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Íþróttahúsinu á Torfnesi í janúar 2008 að viðstöddum miklum mannfjölda.
Kammersveitir og hljómsveitir
Regluleg fiðlukennslu hefur verið við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá haustinu 1971. Aldís Jónsdóttir kenndi fyrstu tvö árin, en síðan tók Jakob Hallgrímsson við og sr. Gunnar Björnsson sem kenndi á selló. Fljótlega var komið á strengjasamspili ýmiss konar með þátttöku annarra hljóðfæra auk þess sem kennararnir stofnuðu Kammersveit Vestfjarða sem starfaði um nokkurra ára skeið. Síðustu 14 árin hefur Janusz Frach stýrt hljómsveitarstarfinu og haft sveitir fyrir bæði yngri og eldri nemendur. Strengjasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar fór í tónleikaferð til Póllands árið 1997 og aftur vorið 2003 en þá var Tékkland einnig heimsótt.
Hljómsveitin sá um allan undirleik í söngleiknum Söngvaseið sem settur var upp veturinn 2003. Auk þess hefur hún komið fram við ýmis tækifæri og viðburði.