Frá Smiðjugötu í Húsmæðraskólann

16. mars 2009 | 60 ára afmælið

Húsnæðismál Tónlistarskóla Ísafjarðar
Fyrstu fjögur árin var Tónlistarskóli Ísafjarðar til húsa að Hafnarstræti 2 á Ísafirði, heimili skólastjórans Ragnars H. Ragnar og fjölskyldu hans. Er þau fluttu í Smiðjugötu 5 fluttist starfsemin skólans þangað. Síðar fór kennslan einnig fram á einkaheimilum og leiguhúsnæði víðs vegar í bænum, m.a. í grunnskólanum, framhaldsskólanum og kirkjunni. Í kringum 1980 var kennt á 14 stöðum víðsvegarum bæinn og mátti segja að ófremdarástand einkenndi húsnæðismál tónlistarskólans.

 

Við skólaslit Tónlistarskóla Ísafjarðar árið 1982 hvatti Ragnar ísfirskar konur til að gangast fyrir fjársöfnun til byggingar skólahúsnæðis. Konurnar tóku áskoruninni og stofnuðu Styrktarsjóð í nóvember 1982 sem hefur frá upphafi reynst skólanum sterkur bakhjarl, jafnt í húsnæðismálum sem öðrum málum er til hagsbóta horfa. Haustið 1984 var samþykkt á aðalfundi Tónlistarfélags Ísafjarðar að hefja framkvæmdir við nýbyggingu skólans á Torfnesi. Ragnar H. Ragnar tók fyrstu skóflustunguna að hinu nýja skólahúsnæði í júní 1985 og um haustið var lokið við að steypa sökkla og gólfplötu. Fjárskortur varð hins vegar til þess að framkvæmdir stöðvuðust.

 

Árið 1986 fékk skólinn efstu hæðina í Húsmæðraskólanum Ósk við Austurveg til afnota og var litið á það sem bráðabirgðalausn þar til nýiskólinn risi á Torfnesi. Ekki kom þó til þess að haldið yrði áfram með nýbygginguna. Árið 1997 var gert samkomulag milli bæjaryfirvalda og Tónlistarfélagsins um að skipti yrðu höfð á grunninum á Torfnesi og tveimur efri hæðum Húsmæðraskólans Óskar við Austurveg og þar yrði framtíðarhúsnæði skólans.

 

Sumarið 1998 fékk Tónlistarfélag Ísafjarðar síðan allt húsnæði húsmæðraskólans til eignar. Var þegar hafist handa við gagngerar endurbætur á húsnæðinu auk þess sem ráðist var í að byggja nýjan tónleikasal við húsið. Endurbótunum var að mestu lokið á haustmánuðum 1998 og var nýi tónleikasalurinn, Hamrar, tekinn í notkun í september 1999. Var Tónlistarskóli Ísafjarðar þar með kominn í gott húsnæðiog starfseminni sköpuð umgjörð við hæfi.
 

Skrifstofan er opin frá 12:30-16:00.
Sími 450-8340
Tölvupóstur tonis@tonis.is